Fréttasafn



28. apr. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Þörf á frekari aðgerðum stjórnvalda

Ljóst er að þörf er á frekari aðgerðum til ná þríþættu markmiði aðgerðanna, þ.e. að í þeim felist fullnægjandi varnir, vernd og viðspyrna fyrir heimilin, fyrirtækin og hagkerfið. Afstaða SI er því sú að þrátt fyrir að í aðgerðum stjórnvalda felist skref í rétta átt þá þarf meira til. Eftir því sem dregur úr faraldrinum og sóttvarnaraðgerðum vegna hans munu áherslur í aðgerðum stjórnvalda þurfa að færast í auknum mæli úr því að bregðast við bráðavanda yfir á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir efnahagslífið að faraldrinum loknum. Með því móti er stutt við verðmætasköpun með tilheyrandi framtíðartekjum fyrir ríkissjóð. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um aðgerðir stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 726. mál, 725. mál og 724. mál, en samtökin leggja til að frumvörpin verði samþykkt að teknu tilliti til athugasemda sem koma fram í umsögninni. 

Stærsti efnahagssamdráttur í heila öld

Í umsögninni sem send hefur verið fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd kemur fram að Samtök iðnaðarins fagni annarri aðgerðaáætlun stjórnvalda. Frá því að fyrsta aðgerðaáætlun stjórnvalda hafi verið kynnt fyrir um mánuði síðan hafi borist jákvæðar fréttir um að virkum COVID-19 smitum hér á landi hafi fækkað umtalsvert. Á sama tíma hafi hins vegar komið betur í ljós hversu mikil neikvæð efnahagsáhrif heimsfaraldur kórónuveiru hafi haft, hér á landi og í okkar helstu viðskiptalöndum. Hér á landi sé nú reiknað með stærsta efnahagssamdrætti í heila öld og að atvinnuleysi verði meira en áður hafi sést hér á landi. Nú þegar séu um 53 þúsund manns á atvinnuleysisskrá eða í hlutastarfaleið.

Önnur aðgerðaráætlun mætti vera umfangsmeiri

Það er mat SI að önnur aðgerðaáætlunin sem umsögnin fjallar um mætti vera umfangsmeiri og að aukin áhersla væri á þætti sem bæti samkeppnishæfni landsins, verji störf og skapi þannig tekjur fyrir ríkissjóð í framtíðinni. Í umsögninni segir að umfang þeirra 20 aðgerða sem stjórnvöld hafi boðað, og að hluta hrint í framkvæmd, séu um 290 ma.kr. eða um 10% af landsframleiðslu. Um sé að ræða tvær aðgerðaáætlanir með fjölþættum aðgerðum sem nýtast heimilum og fyrirtækjum vel í að takast á við afleiðingar veirufaraldursins. Fyrsta aðgerðaáætlunin hafi verið mun umfangsmeiri en önnur aðgerðaáætlunin eða um 230 ma.kr. samanborið við 60 ma.kr. umfang þeirrar áætlunar sem fjallað er um í umsögninni. 

Í umsögninni eru lagðar til fjölmargar breytingar. Meðal annars að hlutfall endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði sé allt að 35% í stað 20%, að hámark kostnaðar til útreiknings vegna frádráttar rannsóknar- og þróunarvinnu verði 1,1 milljarður, að átakið Allir vinna nái einnig til jarðvinnu og þjónustuiðngreina líkt og snyrtifræði, hársnyrtiiðn, gull- og silfursmíði, kjól- og klæðskeraiðn og ljósmyndun, að lokunarstyrkir verði hækkaðir og skilyrði rýmkuð, að gengið verði lengra í stuðningslánum sem ríkissjóður ábyrgist þannig að þau styðji betur við fyrirtækin sem hafa þurft að bera fastan kostnað auk launakostnaðar þrátt fyrir litlar sem engar tekjur.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.