Þörf á lagabreytingu til að tryggja eftirlit með snyrtistofum
„Við höfum í gegnum árin gagnrýnt skort á eftirliti. Við teljum þörf á lagabreytingum til að tryggja bæði virkt eftirlit og til þess að lagaumgerðin sé algerlega skýr. Til að starfrækja snyrtistofu þarftu að vera með meistararéttindi, eftirlit með því er í höndum lögreglunnar,“ segir Guðný Hjaltadóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í fréttum RÚV í kjölfar umfjöllunar Kveiks sem bar yfirskriftina Óreiða á snyrtistofum en snyrtifræðingur er lögverndað starfsheiti og Samtök iðnaðarins gæta hagsmuna Félags íslenskra snyrtifræðinga. Í frétt RÚV kemur fram að Samtök iðnaðarins leggi til að eftirlitinu verði framvegis einungis sinnt af heilbrigðiseftirlitinu en nú sé það á ábyrgð þess, lögreglu og Vinnumálastofnunar. „Því miður hefur þessi glæpastarfsemi fengið að grassera í eftirlitslausu umhverfi,“ segir Guðný.
Þá kemur fram í fréttinni að Samtök iðnaðarins hafi nýverið hafið samstarf við eigendur smáforritsins Noona þar sem bóka megi ýmsa þjónustu, meðal annars á snyrtistofum og að þar megi sjá menntun þess sem veitir þjónustuna. „Þar eru þeir vottaðir sem meistarar eða sveinar sem tryggir ákveðna neytendavernd,“ segir Guðný jafnframt.
Í fréttinni er einnig rætt við Brynhildi Írisi Bragadóttur, meistara í snyrtifræði og varaformann Félags íslenskra snyrtifræðinga, sem segir meðal annars að innan snyrtifræðingastéttarinnar séu sívaxandi áhyggjur af fjölgun leyfislausra nagla- og snyrtistofa. „Þetta hefur verið mikil ógn, síðustu þrjú ár hefur þetta aukist gríðarlega.“
RÚV, 24. september 2024.