Fréttasafn



28. jan. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Þörf á meiri fjárfestingum í innviðum landsins

Rætt er við Árna Sigurjónsson, formann SI, í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann segir þörf á mun meiri fjárfestingum í innviðum landsins en áætlanir opinberra aðila upp á 139 milljarða kveða á um á þessu ári því í kreppunni nú vegna kórónuveirufaraldursins sé rétti tíminn til að gefa verulega í. 

Í frétt Stöðvar 2 kemur fram að á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins hafi opinberir aðilar kynnt útboðs- og framkvæmdaáætlanir sína fyrir yfirstandandi ár. Það sé áberandi hvað stærstu fjárfestingaraðilarnir, Reykjavíkurborg, Vegagerðin, Fjársýsla ríkisins og Isavia, ætli að gefa mikið í á þessu ári. Skýringanna sé að hluta að leita í því að ekkert varð af um þriðjungi framkvæmdanna í fyrra. 

„Það eru vissulega örlítið vonbrigði að sjá þessa lækkun. Þó að heimsfaraldur kórónuveiru skýrir stóran hluta af þessu og við nefndum sem dæmi að Isavia hafi áætlanir uppi um 20 milljarða fjárfestingar. Endaði í einhverjum 200 milljónum, rétt rúmlega, þannig að það munar mjög miklu um það. Samdrátturinn var upp á 29%,“ segir Árni. 

Vegagerðin fjárfesti fyrir 7,6 milljörðum minna í fyrra en áætlanir gerðu ráð fyrir, meðal annars vegna seinkunar ýmissra útboða. Áætlanir Isavia hrundu á sama tíma og tekjurnar en Reykjavíkurborg sker sig úr sem ákvað að auka sínar framkvæmdir verulega í fyrra vegna faraldursins. 

Árni segir í fréttinni uppsafnaða þörf fyrir fjárfestingar í innviðum langt umfram áætlanir sem kynntar voru á þinginu og í kreppunni nú sé rétti tíminn. „Fjárfesting í dag í innviðum skilar hagvexti og styrkir okkur til lengri tíma litið. Því lengur sem við seinkum þessum hlutum, þeim mun dýrara mun það verða fyrir okkur í framtíðinni að bæta í þessa liði.“

Stöð 2, 27. janúar 2021, fréttin hefst á mínútu 10:30.

Stod-2-27-01-2021-2Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, ræddi við Árna Sigurjónsson, formann SI.