Fréttasafn28. jan. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Þörf á nýrri hugsun og nýrri tækni til að draga úr losun

„Það er alveg ljóst að þörf er á nýrri hugsun og nýrri tækni til að við náum þeim metnaðarfullu markmiðum sem hafa verið sett hér og annars staðar til að draga úr losun. Það er líka áskorun að gera þetta á þann hátt að það bitni ekki um of á lífsgæðum okkar,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Óðinn Jónsson á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun í umræðum um umhverfis- og loftslagsmál. „Atvinnulífið vill gjarnan samstarf við stjórnvöld í þessum málum, vegna þess að árangur mun ekki nást nema við tökum öll höndum saman." Í þættinum segir Sigurður frá ýmsum verkefnum sem unnið er að, t.d. í samvinnu við Festu, og lúta að því að auka vitund fyrirtækja í loftslagsmálum og aðstoða þau við að þróa umhverfisvænar lausnir. 

Atvinnulífið vill gera meira og betur

Í þættinum kemur fram að losun gróðurhúsalofttegunda haldi áfram að aukast á Íslandi og mest losi álframleiðslan og samgöngur séu í öðru sæti. Sigurður segir í þættinum að stóriðjan á Íslandi standi sig vel í aðgerðum til að draga úr losun en frá 1990 hafi dregið um 75% úr losun á hvert framleitt tonn af áli og unnið sé að þróunarverkefnum sem ætlað sé að draga enn frekar úr losuninni.  „Atvinnulífið vill gera meira og betur í þessum málum,“ segir Sigurður. 

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð á Morgunvaktinni á Rás 1 í heild sinni. 

Rás 1, 28. janúar 2018.