Fréttasafn



8. apr. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Þrátt fyrir aukningu íbúða í byggingu er það ekki nóg

„Lóðaframboð hefur ekki verið nægt og skipulagsmál hafa haldið aftur af uppbyggingu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um nýja íbúðatalningu SI og HMS þegar hann er spurður hvers vegna framboð nýrra íbúða mætir ekki þörfinni. Hann segir að mikil fjölgun íbúða í byggingu sé aðallega á fyrstu byggingarstigum. „Þetta eru ný verkefni og koma kannski á markað á næsta ári og eitthvað á þessu ári. Þótt það sé aukning þá er hún ekki nóg.“

Hægt að flytja inn mannskap og tæki með stuttum fyrirvara ef þarf

Þegar Sigurður er spurður ef fjöldi lóða bættist við hvort væri þá til mannskapur og tæki til að byggja á þeim segir hann: „Fáar atvinnugreinar eru jafn sveigjanlegar og byggingariðnaðurinn. Hann hefur þurft að draga saman og auka við með skömmum fyrirvara í gegnum tíðina. Það er hægt að flytja inn mannskap og tæki með stuttum fyrirvara ef þarf. Við heyrum á okkar félagsmönnum að þetta er ekki fyrirstaða.“

Einföldun á regluverki flýtir fyrir verklegum framkvæmdum

Þá kemur fram að Sigurður segir að liðið geti tvö ár frá því að byggingarframkvæmdir hefjast þar til hægt er að flytja inn. „Það þarf alltaf að vera nægt framboð á lóðum og sveitarfélögin þurfa að vera á tánum varðandi skipulag til að tryggja næga uppbyggingu. Það þarf líka að breyta regluverkinu. Við fögnum átakshópi sem er að störfum á vegum stjórnvalda ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Hann á að skila af sér seinna í mánuðinum samkvæmt áætlun. Við eigum von á að þar komi fram tillögur um einföldun á regluverkinu sem mun flýta fyrir verklegum framkvæmdum.“ 

Þarf langtímaáætlun fyrir íbúðauppbyggingu

Einnig segir í fréttinni að SI og HMS fagni boðaðri húsnæðisstefnu og vilji fá hana sem fyrst. „Það þarf langtímaáætlun varðandi íbúðauppbyggingu. Það er lykilatriði að ríkið og stofnanir þess og sveitarfélögin taki höndum saman við það. Allir við borðið þurfa að flýta framkvæmdum eins og hægt er. Ég fagna því að Reykjavíkurborg hefur birt metnaðarfull áform um að byggðar verði 2.000 íbúðir á ári næstu árin. Eins er mikil uppbygging í Hafnarfirði. Ég vildi gjarnan sjá fleiri sveitarfélög setja sér markmið og flýta uppbyggingu íbúða.“ 

Morgunblaðið, 7. apríl 2022.

Morgunbladid-07-04-2022