Þrettán keppendur frá Íslandi taka þátt í EuroSkills í Danmörku
Aldrei hafa jafnmargir þátttakendur verið frá Íslandi í EuroSkills en í ár eða 13 talsins. EuroSkills sem er Evrópumót iðn-, verk- og tæknigreina fer fram í Herning í Danmörku dagana 9.-13. september. EuroSkills fer að jafnaði fram annað hvert ár og hefur Ísland átt fulltrúa í keppninni frá árinu 2007. Á síðustu Evrópumótum hafa keppendur frá Íslandi staðið sig með prýði og hlotið sérstakar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, en besti árangur Íslands eru silfurverðlaun í rafeindavirkjun í EuroSkills í Búdapest árið 2018.
Í tilkynningu kemur fram að EuroSkills verði sett með pomp og prakt á opnunarhátíð, þriðjudaginn 9. september í Herning, en keppnin fer síðan fram dagana 10. - 12. september. Lokaathöfn og verðlaunaafhending verður laugardaginn 13. september.
Öflugur landsliðshópur
Fulltrúar Íslands eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í sinni grein og eru nokkur þeirra sigurvegarar sinna greina á Minni framtíð, Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fram fór í Laugardalshöll í mars sl.
Keppendur fyrir Íslands hönd á EuroSkills verða:
-
Málmsuða Sigfús Björgvin Hilmarsson
-
Pípulagnir Ezekiel Jakob Hanssen
-
Rafeindavirki Einar Örn Ásgeirsson
-
Rafvirki Daniel Francisco Ferreira
-
Iðnaðarstýringar Gunnar Guðmundsson
-
Trésmíði Freyja Lubina Friðriksdóttir
-
Matreiðslumaður Andrés Björgvinsson
-
Framreiðslumaður Daníel Árni Sverrisson
-
Grafísk miðlun Jakob Bjarni Ingason
-
Bakari Guðrún Erla Guðjónsdóttir
-
Hársnyrtiiðn Bryndís Sigurjónsdóttir
-
Málun Hildur Magnúsdóttir
-
Bifvélavirkjun Adam Stefánsson
Um 600 keppendur frá 33 þjóðum munu etja kappi á EuroSkills í Danmörku ásamt þjálfurum sínum og fylgdarliði. Keppt verður í 38 greinum og má búast við um 100 þúsund áhorfendum í Herning dagana 9. – 13. september. Íslensku keppendunum, sem eru á aldrinum 19 – 25 ára, fylgja þjálfarar og fylgdarlið og telur íslenski hópurinn um 50 manns.
Þátttaka sem styrkir framtíð iðn- og verknáms
„Þátttaka Íslands í EuroSkills skiptir miklu máli fyrir eflingu iðn- og verknáms hér á landi ásamt því að vera mikilvæg fyrir sýnileika iðn- og starfsmenntunar,“ segir Georg Páll Skúlason, formaður Verkiðnar – sem á alþjóðavettvangi kallast Skills Iceland.
EuroSkills er haldið af WorldSkills Europe sem er hluti af alþjóðlegu WorldSkills hreyfingunni, sem miðar að því að kynna fjölbreytt tækifæri í iðn- og verknámi. „Við vinnum skipulega með stjórnvöldum og atvinnulífinu að því að undirbúa næstu kynslóð fyrir störf framtíðarinnar. Með þátttöku í EuroSkills gefst Íslandi tækifæri til að þróa færni á lykilsviðum og efla færni bæði keppenda og þeirra kennara sem sinna þjálfun okkar efnilegu fulltrúa sem keppa fyrir Íslands hönd,“ segir Georg Páll og bætir við að þátttakan hafi einnig eflt alþjóðlegt samstarf Íslands á vettvangi menntunar og atvinnuþróunar sérstaklega með norrænum og evrópskum systursamtökum.
Mennta- og barnamálaráðherra skrifar undir Herning yfirlýsinguna
Á EuroSkills í Herning mun Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, fyrir hönd Íslands skrifa undir svokallaða Herning yfirlýsingu. Í yfirlýsingunni eru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES), ESB og samstarfsaðilar í atvinnulífi og menntun að samþykkja að efla gæði og aðgengi að starfsmenntun, stuðla að færniþróun og tryggja samstarf á evrópskum vettvangi. Yfirlýsingin felur í sér skuldbindingu Íslands sem EES-ríkis um að styðja virkt við verkefni á borð við EuroSkills og tengja innlenda stefnumótun við evrópska framtíðarsýn í menntamálum.
Ásamt því að skrifa undir yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands mun mennta- og barnamálaráðherra taka hús á íslensku keppendunum ásamt því að kynna sér EuroSkills. Verður þetta í fyrsta skipti sem ráðherra mætir á EuroSkills keppnina.
Íslensku keppendunum verður fylgt eftir á EuroSkills í máli og myndum, en hægt er að fylgjast með á vefsíðunni www.minframtid.is, Facebook (www.facebook.com/verkidn) og Instagram (www.instagram.com/min__framtid).
Á myndinni er íslenski landsliðshópurinn sem tekur þátt í EuroSkills 2025 í Herning í Danmörku ásamt Georgi Páli Skúlasyni, formanni Verkiðnar / Skills Iceland.