Fréttasafn



27. mar. 2023 Almennar fréttir Menntun

Þriðjungur fyrirtækja finnur fyrir skorti á starfsfólki

Á Menntadegi atvinnulífsins var kynnt greining á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar með það að leiðarljósi að skilgreina til hvaða aðgerða þurfi að grípa svo skortur á vinnuafli verði ekki dragbítur á íslensku atvinnu- og efnahagslífi eða dragi úr vexti þess. Í könnun sem greiningin byggir á segist þriðjungur fyrirtækja finna fyrir skorti á starfsfólki í dag og sama hlutfall telur skort á starfsfólki eigi eftir að standa í vegi fyrir vexti þeirra á næstu fimm árum. Þannig er mest vöntun eftir iðn- og háskólamenntuðu starfsfólki. Þá skortir rúmlega helming fyrirtækja starfsfólk með iðnmenntun og 36% fyrirtækja starfsfólk með fagmenntun. 42% stjórnenda í iðnaði telja að menntakerfinu muni ganga frekar eða mjög illa að mæta færniþörf þeirra á næstu fimm árum.

Á vef SA segir að nú liggi fyrir að jákvæðar kerfisbreytingar séu í farvatninu, en fyrr í þessum mánuði hafi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kynnt tillögur að nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Nýju kerfi er ætlað að taka  mið af mannaflaþörf og sé Vinnumálastofnunfalið að greina þarfir vinnumarkaðarins að fenginni ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga og aðila vinnumarkaðarins.

Á vef SA er hægt að nálgast nánari upplýsingar.