Þrjú íslensk tæknifyrirtæki fá alþjóðlega viðurkenningu
Fyrirtækið App Dynamic er efst á lista yfir þau íslensku tæknifyrirtæki sem vaxa hraðast með tilliti til veltuaukningar á fjögurra ára tímabili en nýr Fast 50 listi var birtur á uppskeruhátíð tæknigeirans sem haldin var í vikunni í Turninum í Kópavogi. Þetta er í annað sinn sem íslensk tæknifyrirtæki eru kortlögð með þessum hætti. Á uppskeruhátíðinni valdi dómnefnd fyrirtækin CrankWheel og Florealis sem Rising Star eða rísandi stjörnur. Fast 50 – Rising Star er alþjóðlegt verkefni á vegum Deloitte sem unnið er í samstarfi við Samtök iðnaðarins, Félag kvenna í atvinnulífinu, Íslandsbanka og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Fyrirtækjunum þremur er í tilefni af þessu boðið á Slush fjárfestaráðstefnuna í Helsinki sem haldin er 30. nóvember til 1. desember næstkomandi. Auk þess fá fyrirtækin tvö sem voru valin rísandi stjörnur 600 þúsund króna styrk frá Íslandsbanka.
Tilgangurinn með Fast 50 – Rising Star verkefninu er fyrst og fremst að draga athygli erlendra aðila að íslenskum tæknifyrirtækjum. Öll fyrirtækin sem eru á íslenska Fast 50 listanum hafa möguleika á að komast á sambærilegan evrópskan lista, EMEA Fast 500, sem fær mikla athygli fjárfesta út um allan heim.
Fjöldi fyrirtækja sótti um þátttöku í Rising Star og valdi dómnefndin sex fyrirtæki úr þeim hópi til að halda stutta kynningu á viðskiptahugmynd sinni á uppskeruhátíðinni. Fyrirtækin sem voru með kynningu eru Ankra, CrankWheel, Karolina Fund, Florealis, Guide to Iceland og Tagplay. Að kynningum loknum valdi dómnefndin tvo sigurvegara, CrankWheel sem hefur hannað skjádeiliforrit sem gerir notendum kleift að deila skjám sínum yfir netið og Florealis sem sérhæfir sig í framleiðslu meðala og lyfja út frá heilsugrösum.
Dómnefndina skipuðu Almar Guðmundsson framkvæmdastjóri SI, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA og formaður dómnefndar, Bala Kamallakharan, fjárfestir, Helga Waage, stofnandi og framkvæmdastjóri Mobilitus, Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, Sigþrúður Guðnadóttir, verkefnastjóri hjá NMÍ, Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB og Íslandsbanka, og Guðrún A. Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR.