Fréttasafn



4. apr. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Þungt hljóð í félagsmönnum SI

Rætt var við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í fréttum Stöðvar 2 sem fjallaði um að svörtustu spár væru þegar að raungerast í efnahagslífinu. Sigurður segir áhrifin smám saman vera að koma í ljós og það sé þungt hljóð í félagsmönnum SI. Í fréttinni segir að ástandið bitni með mismunandi hætti á ólíkum greinum iðnaðarins. „Á síðustu tveimur vikum erum við búin að hringja í á fimmta hundrað félagsmenn í ólíkum greinum iðnaðar til að fá hugmynd um það hvernig ástandið kemur við reksturinn. Til dæmis eru félagsmenn hjá okkur eins og snyrtifræðingar og snyrtistofur sem að hreinlega mega ekki sinna sinni starfsemi lengur og sitja auðvitað uppi með kostnað. Síðan eru önnur fyrirtæki sem hafa kannski getað haldið uppi starfseminni að miklu leyti með þá einhverjum tilfæringum,“ segir Sigurður. 

Á vef Vísis er hægt að horfa á fréttina í heild sinni. 

Stöð 2, 3. apríl 2020.