Fréttasafn



30. mar. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Þurfum að bæta okkur í viðhaldsiðnaðinum

Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasvið SI, í Mannlega þættinum á RÚV þar sem fjallað er um framkvæmdir og viðhald á húseignum. Einnig er rætt við Elísu Arnarsdóttur, lögfræðing og markaðsfulltrúa hjá Húseigendafélaginu. Jóhanna Klara segir í þættinum að Samtök iðnaðarins séu atvinnurekendasamtök með iðnaðinn í sinni fjölbreyttustu mynd þar undir. „Ég starfa á mannvirkjasviði og þar eru fyrirtæki sem eru í bygginga- og mannvirkjagerð. Við erum með alla virðiskeðjuna undir á þessu sviði þannig að við vinnum þar fyrir fyrirtæki sem eru í hönnun, verkfræðingar, arkitektar, við vinnum fyrir stóru verktaka og líka fyrir meistarafélögin sem eru auðvitað mikið í þessum viðhaldsverkefnum sem við erum að einblína á í dag. Hlutverk okkar er að bæta starfsumhverfi þessara fyrirtækja og þá meðal annars líka að nálgast neytendur og reyna að bæta samskiptin þar á milli. Þannig höfum við verið að vinna saman og vinna með Húseigendafélaginu.“

Jóhanna Klara segir að áður fyrr hafi ekki verið mikið verið að gera við hús hér á landi. „Við erum svo ung þjóð. Það er svo stutt síðan að við fórum að búa til þennan viðhaldsiðnað sem er núna til. Það eru fyrirtæki sem eru núna sérhæfð í því. Þetta er nýr hluti af iðnaðinum. Það er alveg ljóst að við þurfum að bæta okkur þar. Við þurfum að bæta okkur gagnvart neytendum og í samskiptum og regluverkinu heilt yfir.“

Vilja koma þekkingu til neytenda til að koma í veg fyrir ágreining

Þegar Jóhanna Klara er spurð um ágreining sem getur komið upp á milli kaupanda og þess sem vinnur viðhaldsverkefnið segir hún það erfitt viðfangsefni þar sem um sé að ræða heimili fólks. „Okkar meistarar leggja mikla áherslu á að reyna að bæta þetta og reyna að koma þekkingunni til neytenda um það hvernig þeir geta kannski komið í veg fyrir svona mál. Hvernig þeir geta undirbúið verkið þannig að það komi ekki upp ágreiningur um verð eða hvað raunverlega átti að gera í tengslum við verkið. Þetta er eitthvað sem við leggjum ríka áherslu á að koma í lag og erum meðal annars með Meistaradeild Samtaka iðnaðarins þar sem öll meistarafélögin eru með heimasíðu sem heitir meistarinn.is þar sem við erum að reyna að miðla allri þessari þekkingu og búa til eyðublöð og annað sem húsfélögin og aðrir sem ætla í viðhaldsframkvæmdir geta þá nýtt sér.“

Undirbúningurinn skiptir öllu máli

Þá kemur fram í viðtalinu við Jóhönnu Klöru að undirbúningurinn sé lykillinn að því hvernig verkefnið bæði fer af stað og hvernig lokaútkoman verður. „Það er oft að undirbúningurinn er ekki nægilega góður. Húseigendur vita ekkert endilega hvað þeir eiga að spyrja um eða hvað það er sem skiptir máli. Undirbúningurinn skiptir öllu máli og vera tímanlega í því. Setjast niður með verktökum og segja erum við með sameiginlegan skilning á því hvað við erum að fara að leggja af stað í. Erum við með sameiginlegan skilning á því hvað fellur undir þetta tilboð sem ég er með í höndunum. Til okkar koma ágreiningsmál í tengslum við verð, ég fékk tilboð en nú er verktakinn með aðra tölu. Það er einn hluti af málinu svo hins vegar erum við að fá til okkar ábendingar um það þegar fólk telur að verkið sé ekki nægilega vel framkvæmt. Þessa þættir er hægt að undirbúa betur með því að setjast niður og eiga samtalið. Fara til dæmis í gegnum gátlista sem við erum með inn á meistarinn.is þar sem húsfélagið getur einfaldlega farið í gegnum ákveðna lista og tikkað í. Til dæmis erum við með aðgerðaráætlun í tengslum við tímalengd verksins, svona einfaldar spurningar.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.

Mannlegi þátturinn á RÚV, 24. febrúar 2022.