Fréttasafn29. sep. 2017 Almennar fréttir

Þurfum að eiga fjölbreytt atvinnulíf á Íslandi

Fjölbreytt atvinnulíf var til umræðu í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í vikunni þar sem rætt var við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI. Hún sagði mikilvægt að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni heldur þurfum við að eiga fjölbreytt atvinnulíf á Íslandi. „Við höfum talað fyrir eflingu iðnaðar hvort sem er í matvælaiðnaði eða orkufrekum iðnaði. Við höfum ekki síst talað fyrir því að efla upplýsinga- og hugverkaiðnað. Það vita það allir að þar erum við að sækja í mannshugann sem er óþrjótandi auðlind. Við erum ekki bundin  þessum náttúrulegu auðlindum sem eru takmarkaðar, hvort sem það er vatnsorka, fiskurinn í sjónum eða landsins gæði. Við viljum efla Ísland og að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar hugverk og upplýsingatækni.“

Hún sagði gríðarlega gerjun vera á Íslandi í margvíslegri nýsköpun.  „Ég dáist að mörgu ungu fólki og verkefnunum sem þau eru að fást við. Nýsköpunarumhverfið hér á landi er frjótt og það heldur ágætlega utan um sprota. Hins vegar höfum við gagnrýnt það hjá Samtökum iðnaðarins að þegar sprotinn er byrjaður að spíra og hann þarf að fá betri vaxtarskilyrði þá virðist okkur ekki takast að taka vel utan um þann gróanda. Þar þurfum við að bæta okkur enn frekar.“

Guðrún sagði að við gætum einnig bætt okkur í framleiðslu og útflutningi. „Ég er sjálf í matvælaframleiðslu og við gætum alveg staðið frammi fyrir því á ákveðnum tímapunkti að íslenskur matur gæti orðið meiri útflutningsvara heldur en hann er í dag.“ Hún sagðist gjarnan vilja sjá meiri sölu á kjöti út fyrir landsteinana og þá sérstaklega lambakjöti. „Því ég held að það sé einstök vara á heimsvísu.“

Á Bylgjunni er hægt að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni.