Fréttasafn



8. júl. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Þurfum að gæta hagsmuna á vettvangi bæði EES og EFTA

Í Sprengisandi á Bylgjunni er rætt við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI og formann ráðgjafanefndar EFTA, um Evrópumál og mikilvægi þess að gæta vel að hagsmunum Íslands í Evrópu. Hún segir meðal annars að umræðan um EES-samninginn hafi verið óvægin og gagnrýnin miðað við tilefni í ljósi þess að um sé að ræða mikilvægasta viðskiptasamning Íslands og að við gleymum stundum að horfa á þá heildarhagsmuni. „Að því sögðu þá sýni ég þessari gagnrýni skilning en hún kemur ekki síst til vegna þess að þegar ESB-gerðir og annað er innleitt inn í EES-samninginn þá kemur til kasta stjórnsýslu og þaðan til kasta Alþingis og þá hefur því miður verið alltof algengt að við höfum sett viðbótarkröfur á, svokölluð gullhúðun. Þetta auðvitað grefur undan EES-samningnum og stuðningi við hann. Við þurfum bara að taka nokkur skref aftur á bak og segja hverjir eru hagsmunirnir okkar. Ég held að ljóst sé að kostir EES-samningsins fyrir Ísland og íslenska hagsmuni til lengri tíma vega þyngra en gallar. En gullhúðunin er sérvandamál en það er heimatilbúinn vandi sem við þurfum að taka á og vinda ofan af sem allra fyrst. En vissulega er þetta samstarf gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland og við þurfum auðvitað að gæta hagsmuna okkar á þessum mikilvæga vettvangi, bæði EES og EFTA. “

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 7. júlí 2024.