Fréttasafn



28. feb. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Þurfum að gæta hagsmuna okkar bæði til austurs og vesturs

„Við verðum að gæta að hagsmunum okkar bæði til austurs og vesturs“, segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasvið SI, í frétt RÚV um áform Bandaríkjaforseti um háa tolla á innflutta vöruflokka eins og lyf og lækningavörur. „Það gæti komið sér illa fyrir mikilvæg fyrirtæki hér á landi.“

Snýst ekki bara um landssvæði heldur líka vöruflokka

Sigríður segir í fréttinni að SI hafi á undanförnum vikum undirbúið viðbrögð við mögulegu tollastríði. Nú hafi Bandaríkjaforseti í fyrsta sinn nefnt hversu háa tolla hann vill leggja á vörur frá Evrópusambandinu sem hann segir að hafi verið stofnað til að rugla í Bandaríkjunum. Spurningin sé hvort hann láti það sama gilda um Ísland og önnur EES-ríki. „Mér finnst ólíklegt að hann líti á okkur sem hluta af Evrópusambandinu í þessu samhengi enda erum við ekki hluti af tollabandalagi Evrópu. Hann hefur hins vegar einnig hótað og/eða boðað tolla á einstaka vöruflokka. Þannig að þetta snýst ekki bara um landssvæði heldur líka vöruflokka.“

Mikið í húfi fyrir einstök fyrirtæki

Í fréttinni kemur fram að Íslendingar selji vörur til útlanda fyrir hundruð milljarða króna á hverju ári og stór hluti þess séu iðnaðarvörur til Bandaríkjanna, þar séu lækningavörur og -tæki langstærsti hlutinn. Einnig kemur fram að Trump hafi þegar fyrirskipað tolla á öll lyf sem séu flutt inn til Bandaríkjanna og þar séu hagsmunir Íslands töluverðir, þá sé einnig flutt töluvert af kísiljárni héðan til Bandaríkjanna. „Þannig að þar er líka mikið í húfi fyrir einstök fyrirtæki. En í iðnaðinum þá eru þetta lækningavörur og tæki sem eru mjög stór til Bandaríkjanna, stór liður og svo til Evrópusambandsins þá er það álið sem er stærst.“

Afla upplýsinga og koma sjónarmiðum og hagsmunum á framfæri

Sigríður segir í fréttinni að þetta snúist aðallega um upplýsingagjöf og að koma hagsmunum okkar á framfæri bæði við framkvæmdastjórn ESB og aðildarríki þess og svo við Bandaríkin. „Þannig að við þurfum að gæta hagsmuna okkar bæði til austurs og vesturs og vera í þéttu samtali og það er það sem þessi hagsmunagæsla snýst fyrst og fremst um, að afla upplýsinga og koma okkar sjónarmiðum og hagsmunum á framfæri.“

RÚV, 27. febrúar 2025.