Þurfum að keppa við lönd sem spila eftir öðrum leikreglum
Íslensk fyrirtæki eru langt frá því að undirbjóða aðila á evrópskum markaði í verði en þrátt fyrir það gætu áform um verndarráðstafanir Evrópusambandsins, sem byggja á lágmarksverði bitnað á íslenskum fyrirtækjum. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í frétt mbl.is um áformaðar breytingar tolla Evrópusambandsins. Í fréttinni kemur fram að samtökin séu þó vongóð um að íslenskum stjórnvöldum takist að snúa málinu við svo íslenskir hagsmunir muni ekki hljóta skaða af.
Ísland sett í sama flokk og Kína, Kasakstan og Indland
Sigríður segir í frétt mbl.is að veik staða Íslands fælist því að mestu leyti í stórminnkuðu samkeppnishæfi, ekki þeim kostnaði sem fyrirtæki gætu þurft að greiða. „Með þessu væri verið að setja okkur í sama viðskiptaflokk gagnvart ESB og lönd á borð við Kína, Kasakstan og Indland þar sem allt aðrar reglur gilda um framleiðslu sem leiða til ódýrara framleiðsluferlis ofan á mun lægri launakostnað.“ Í fréttinni segir að á Íslandi sé launa- og framleiðslukostnaður hins vegar á pari við fyrirtæki innan ESB og að Ísland hafi þar að auki innleitt reglur Evrópusambandsins um umhverfiskröfur og fleira undir EES-samningnum sem geti borið með sér mikinn aukakostnað.
Keppa við lönd sem spila eftir öðrum leikreglum
Sigríður segir jafnframt í fréttinni að það breyti ekki öllu hvert sett lágmarksverð sé heldur snúist málið frekar um samkeppnishæfi Íslands gagnvart þessum framleiðslurisum. „Ef við erum ekki innan verndarmúrsins eins og t.d. Þýskaland og Frakkland, þá erum við orðin ósamkeppnishæf því við erum með jafnháan framleiðslu- og launakostnað og lönd innan ESB, ef ekki hærri, en þurfum að keppa á móti þessum löndum sem spila eftir allt öðrum leikreglum.“ Ísland hefði sama skerta aðgang að Evrópumarkaðnum og Kína, en mun umfangsmeira regluverk og mun hærri framleiðslukostnað. „Við erum undirsett íþyngjandi regluverki Evrópusambandsins sem við erum búin að innleiða undir EES-samningnum, meðal annars í þeim beina tilgangi að fá aðgang að innri markaði EES, en með þessu yrðum við komin utan hans.“
Vongóð um að þessu verði snúið við
Í fréttinni segir að staðan sé auðvitað áhyggjuefni, en hrósa beri utanríkisráðuneytinu fyrir mjög vel unnin störf í baráttu sinni við að halda uppi hagsmunum Íslands á síðustu dögum. „Þau eru að róa öllum árum til að snúa þessu við og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að þetta skaði ekki íslenska hagsmuni, og við ætlum að leyfa okkur að vera vongóð um að það takist þar til annað kemur í ljós.“
mbl.is, 28. júlí 2025.