Fréttasafn



25. ágú. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Þyrfti að leggja meiri áherslu á séreign frekar en leiguíbúðir

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Bítinu á Bylgjunni um áformaða íbúðauppbyggingu í tengslum við nýútgefna greiningu SI sem ber yfirskriftina Íbúðauppbygging stefnir í öfuga átt. Sigurður segir að áherslur stjórnvalda eins og við þekkjum séu áform að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir á næstu 10 árum og séu stjórnvöld að semja við sveitarfélögin hvernig eigi að haga þeirri uppbyggingu. „Miðað við það þá er alltof mikil áhersla lögð á leiguíbúðir og staðan er sú að í dag er hlutfallið 80/20, 80% er séreign, fólk sem býr í eigin húsnæði og 20% sem er á leigumarkaði.“ 

Sigurður segir að ef kannanir eru skoðaðar sem hafa verið gerðar reglulega þá vilji landsmenn mjög síður vera á leigumarkaði. „Flestir vilja eiga sína eigin íbúð. Það hefur verið mælt og ef við skoðum annars vegar vilja fólks og getu þá væri jafnvægið einhvers staðar í 85% í séreign og 15% á leigumarkaði. Ef við ætluðum að ná þessu þá þyrftum við að leggja miklu meiri áherslu á séreignina. En ríki og sveitarfélög virðast á næstu 10 árum ætla að leggja miklu meiri áherslu á leiguhlutann þannig að hlutfallið stefnir frekar í 77-75% í séreign.“

Sigurður segir að ein ástæða þess að Samtök iðnaðarins hafi gert greininguna sé að samtökin hafi saknað þess að sjá ekki rökstuðning á bak við þessar áherslur. „Við vildum setja þetta fram og skapa þannig umræðu um þessi markmið.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 25. ágúst 2023.