Fréttasafn7. okt. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Tilefnið kallaði á hörð viðbrögð

Í Bítinu á Bylgjunni er rætt við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Dóru Björt Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata. Í þættinum fer Sigríður yfir það af hverju brugðust var svona hart við þegar borgarfulltrúinn sagði borgina hafa fundað með Samtökum iðnaðarins sem reyndist rangt með farið. „Tilefnið kallaði á þessi hörðu viðbrögð og er einfaldlega vegna þess að líkt og Dóra þá störfum við ekki umboðslaus. Við erum með 1.400 félagsmenn, þar af tugi fyrirtækja sem starfa á sviði upplýsingatækni og ef við tökum sprotafyrirtækin með þá eru þetta rosalega mörg fyrirtæki, lítil og stór. Við vinnum í umboði okkar félagsmanna. Ég held að Dóru sé það fyllilega ljóst að í þessu máli þá eru það Samtök iðnaðarins sem eru að gæta hagsmuna upplýsingatækniiðnaðar, þar liggja stóru hagsmunirnir í þessu máli.“

Ef er misskilningur þá er það vegna misvísandi upplýsinga frá borginni

Sigríður segir að ekki bara hafi borgarfulltrúinn talaði um fund með Samtökum iðnaðarins og nefndi bæði með Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins heldur hafi hún einnig lýst fundinum, efnistökum hans og jafnvel niðurstöðum, að það væri komin einhver sátt í málið. „Hún talar líka um að misskilningur hafi verið leiðréttur en ég veit ekki enn hver þessi misskilningur er. Það hefur enginn misskilningur átt sér stað af okkar hálfu og þar af leiðandi er ekki hægt að leiðrétta misskilning sem ekki hefur átt sér stað. Hún talar um misskilning á síðum Morgunblaðsins, misskilningur sem kemur þá til vegna misvísandi upplýsinga frá borginni sjálfri en ekki vegna okkar gagnrýni. Okkar gagnrýni byggir á á því sem við lesum frá fulltrúum borgarinnar um þetta mál.“

Samtök iðnaðarins í umboði upplýsingatækniiðnaðarins

Þá kemur fram hjá Sigríði í þættinum að beina þurfi spurningum til Samtaka atvinnulífsins varðandi fullyrðingar um fund með þeim. „Ég veit það þó ég tali ekki fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, þau tala fyrir sig sjálf, þá kannast enginn heldur við fund, að formlegur fundur hafi átt sér stað. Ég get auðvitað ekki svarað fyrir Samtök atvinnulífsins og þarf að beina þeim spurningum að þeim. Eftir því sem ég kemst næst þá kannast enginn þar við formlega fund með meirihlutanum né embættismönnum.“ Hún segir aðalatriðið vera að ekkert sé til í því að það hafi átt sér stað fundur með Samtökum iðnaðarins. „Innan Samtaka iðnaðarins er upplýsingatækniiðnaðurinn. Við erum í umboði fyrir þá atvinnugrein sem er stór atvinnugrein hér á landi og samanstendur af litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum og gætum þeirra hagsmuna. Þannig að við auðvitað stöndum við þessi orð og tilefnið kallaði á hörð viðbrögð af okkar hálfu því við erum að vinna í umboði okkar félagsmanna.“

Borgarstjóri ekki orðið við beiðni um fund

Sigríður segist fagna að ræða efnisatriði málsins því það er það sem skiptir máli. „Við getum ekki sætt okkur við það að nafn Samtaka iðnaðarins sé notað til að setja einhvern gæðastimpil eða róa umræðuna á borgarstjórnarfundi með því að segja þetta er allt í góðu og Samtök iðnaðarins eru orðin sátt.“ Hún segir að Samtök iðnaðarins hafi verið búin að stíga fram með harða gagnrýni. „Sem við stöndum við miðað við þær fyrirætlanir sem eru kynntar á forsíðu Morgunblaðsins af hálfu borgarinnar á sínum tíma.“ Þá kemur fram í máli Sigríðar að 22. september síðastliðinn hafi verið sent formlegt erindi til borgarritara til að óska eftir fundi með borgarstjóra til að ræða þetta mál en ekki hafi verið orðið við því. „Auðvitað eru embættismenn borgarinnar og þeir sem eru núna með þetta verkefni í höndunum væntanlega að gera sitt besta til að leysa sem best úr þessu. Það er auðvitað frábært að borgin sé að fara í stafræna vegferð en þeir geta auðvitað ekki svarað fyrir þær ákvarðanir sem eru teknar. Þeir vinna bara með ákvarðanir sem eru teknar af pólitíkinni í borginni. Við óskuðum eftir fundi með borgarstjóra 22. september og við höfum ekki fengið svör við þeirri beiðni enn.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni. 

Bylgjan, 7. október 2021.

Bylgjan-07-10-2021-3-Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, í útvarpsþættinu Bítið á Bylgjunni.