Fréttasafn18. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Tillaga um 3.000 nýjar íbúðir í Reykjavík er skref í rétta átt

„Það vantar fleiri íbúðir á markaðinn, það er grunnvandinn,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um tillögu Sjálfstæðisflokksins í borginni um tafarlausa uppbyggingu 3.000 íbúða í höfuðborginni sem fengju sérstaka flýtimeðferð til að mæta brýnni þörf á íbúðarhúsnæði í Reykjavík. Byggingarsvæðin, sem um ræðir eru í Keldnalandi og Keldnaholti, á BSÍ-reitnum og í Úlfarsárdal. Íbúðirnar kæmu til viðbótar núverandi húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar. 

Vantar 30.000 íbúðir á þessum áratug

Sigurður minnir á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telji að á landsvísu vanti 30.000 íbúðir á þessum áratug, en vegna þess að fjölgunin verður meiri á fyrri hluta hans, þurfi um 3.500 íbúðir á ári á næstunni, langflestar á höfuðborgarsvæðinu. „Þannig að þetta er fullhófleg tillaga hjá sjálfstæðismönnum. Hins vegar er markmið meirihlutans í borginni að það verði þúsund nýjar íbúðir til á ári, sem er allt of lítið.“ 

Borgin ekki hluti af lausninni ef núverandi meirihluti áttar sig ekki á vandamálinu

Í frétt Morgunblaðsins segir að Sigurður furði sig á því að borgarfulltrúar meirihlutans séu ekki betur upplýstir um stöðuna. „Stærsta sveitarfélag landsins, sem er Reykjavíkurborg, getur ekki orðið hluti af lausninni ef meirihlutinn áttar sig ekki á því hvert vandamálið er. Þess vegna fögnum við þessari tillögu, sem fram er komin í borgarstjórn, um að bæta myndarlega í uppbygginguna, þó kannski þurfi hún að vera meiri en þar er gert ráð fyrir. En hún er skref í rétta átt.“ Þá segir í fréttinni að Sigurður beini spjótunum að meirihlutanum: „Stóra myndin er þessi: Það þarf fleiri íbúðir en núverandi meirihluti er ekki með ráðgerðir um að þær verði til í Reykjavík.“ 

Morgunblaðið,18. október 2021.

Vísir, 18. október 2021.

Morgunbladid-18-10-2021