Tillögur sem miða að hagkvæmari byggingamarkaði
Styttri byggingartími, einfaldara regluverk, lækkun byggingarkostnaðar og stóraukin rafræn stjórnsýsla í byggingariðnaði eru meðal tillagna sem kynntar voru á fjölmennum fundi sem Byggingavettvangurinn stóð fyrir í morgun í Háteigi á Grand Hóteli. Tillögurnar miða að því að bæta og einfalda regluverk og ferla og leggja með því grunninn að því að hægt verði að byggja húsnæði á hagkvæmari hátt, sem skili sér í lægra húsnæðisverði.
Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, kynnti tillögurnar en einnig fjölluðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, um mikilvægi þess að einfalda regluverk og auka rafræna stjórnsýslu. Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Byggingavettvangsins, stýrði fundinum og pallborði að honum loknum.
Í fréttatilkynningu segir að tillögurnar séu alls fjórar. Í þeim sé gert ráð fyrir að Byggingagátt verði gerð að lagaskyldu en með því opnist möguleiki á að færa skil, eftirlit og kærur í rafrænt ferli, nýta rafrænar undirskriftir og fá þannig yfirsýn yfir byggingamarkaðinn á einum stað og spara sömuleiðis tíma sem fari í að ferðast með pappíra milli aðila. Þá sé gert ráð fyrir að tekin verði upp flokkun mannvirkja sem muni auka sveigjanleika og stytta byggingatíma, einkum einfaldari mannvirkja. Einnig sé gert ráð fyrir ákvæði um faggiltar skoðunarstofur sem muni auðvelda úthýsingu eftirlits til sérhæfðra aðila. Að lokum sé lagt til að kærumál verði færð í sérstaka kærunefnd bygginga- og skipulagsmála og kærufrestir styttir. Þannig sé ætlunin að málsmeðferðatími kæra styttist en málsmeðferðartími sé nú umtalsvert lengi en lög leyfa og hafi verið að lengjast mjög síðustu misseri. „Betri húsnæðismarkaður, meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast á byggingamarkaðnum, einfaldara ferli og aukin gæði er eitthvað sem kemur okkur öllum við. Það er mjög mikilvægt að allir þessir aðilar hafa komið sér saman um næstu skref og mikil samstaða er um að færa byggingamarkaðinn inn í framtíðina, það hef ég fundið í öllu þessu ferli, og ekki síst á fundinum í morgun,“ er haft eftir Söndru í fréttatilkynningunni.
Byggingavettvangurinn er samráðsvettvangur hagaðila í byggingariðnaði. Að vettvanginum standa Samtök iðnaðarins, Íbúðalánasjóður, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Mannvirkjastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skipulagsstofnun og Framkvæmdasýsla ríkisins.
Hér er hægt að nálgast skýrslu sem gefin var út í dag.
Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.
Hér er hægt að nálgast viðtal við Söndru í Bítinu á Bylgjunni.
Myndir: Rakel Ósk.