Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna
Tilnefningar Íslensku menntaverðlaunanna hafa verið birtar. Afhending verðlaunanna fer fram á Bessastöðum 4. nóvember og verður verðlaunaafhendingin á dagskrá RÚV 5. nóvember. Að Íslensku menntaverðlaununum standa fjórtán aðilar undir forystu forsetaembættisins, þar á meðal eru Samtök iðnaðarins. Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt eftir að þau voru endurreist 2020. Myndin hér fyrir ofan er tekin við afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna á síðasta ári.
Framúrskarandi menntastofnanir
Tilnefningar í flokki framúrskarandi menntastofnana (smellið á heitin til að sjá greinargerðirnar):
- Leikskólinn Iðavöllur á Akureyri fyrir ötult, fjölbreytt og faglegt þróunarstarf, frumkvæði og metnað.
- Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar fyrir metnaðarfullt og árangursríkt tónlistarstarf sem unnið er af elju og fagmensku í þágu barna.
- Víkurskóli í Reykjavík fyrir öflugt og metnaðarfullt þróunarstarf með áherslu á nýsköpun, hönnunarhugsun, samþættingu og leiðsagnarmat.
Framúrskarandi kennsla
- Gunnar Ásgeir Sigurjónsson, framhaldsskólakennari á pípulagningabraut Tækniskólans, fyrir einstaka alúð við nemendur og fagmennsku í starfi.
- Hjördís Óladóttir, grunnskólakennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, fyrir skapandi og fjölbreytta kennsluhætti og námsumhverfi í byrjendakennslu.
- Ingibjörg Jónasdóttir, leikskólakennari við leikskólann Rauðhól í Reykjavík, fyrir farsælt brautryðjendastarf í leikskólakennslu.
- Laufey Einarsdóttir, grunnskólakennari í Sæmundarskóla í Reykjavík, fyrir faglega, hugmynda- og árangursríka stærðfræðikennslu.
- Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, fyrir sérlega árangursríka íþróttakennslu.
Framúrskarandi þróunarverkefni
- Gullin í grenndinni – samvinna leikskólans Álfheima og Vallaskóla á Selfossi um nám úti í náttúrunni.
- Íslenskubrú Breiðholts – samstarfsverkefni grunnskólanna í Breiðholti í Reykjavík um að efla íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku.
- Lítil skref á leið til læsis – samstarf leikskólans Grænuvalla- og Borgarhólsskóla á Húsavík um málörvun og læsi.
Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar
- Fataiðndeild Tækniskólans fyrir einstaklega metnaðarfulla og faglega kennslu.
- Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum fyrir framúrskarandi nám í málm- og vélstjórnargreinum.
- Unnar Þorsteinn Bjartmarsson, grunn- og framhaldsskólakennari við Grunnskóla Borgarfjarðar og Fjölbrautaskóla Vesturlands fyrir að kveikja áhuga nemenda á iðn- og verknámi.
.