Fréttasafn



11. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Tímabær og jákvæð hagstjórnarviðbrögð

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa nú brugðist við þeim óveðursskýjum sem eru yfir Íslandi en aðgerðir voru kynntar í vikunni. Aðgerðirnar eru jákvæðar að mati Samtaka iðnaðarins og til þess fallnar að hjálpa fyrirtækum og heimilum að takast á við samdrátt og milda höggið.

Vandinn er tvíþættur. Annars vegar almennur en kólnun hagkerfisins er staðreynd og birtist meðal annars í auknu atvinnuleysi, minni útflutningi og samdrætti í landsframleiðslu á mann á þessu ári. Hins vegar sértækur en dreifing COVID-19 veirunnar hefur áhrif á alla heimsbyggðina og er Ísland ekki undanskilið. Dreifing veirunnar og efnahagsleg áhrif hennar hefur verið hröð. Með hliðsjón af tvíþættum vanda er þörf á skjótum og markvissum hagstjórnaraðgerðum sem miða að því að koma fyrirtækjum og heimilum til bjargar sem verða hvað verst fyrir áhrifum minni eftirspurnar. Hagstjórnaraðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans eru því tímabærar en í þeim felst að leitast er við að aðgerðirnar hafi sem skjótvirkust áhrif.

Fjögur púsl sem mynda heildstæða mynd

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans eru í fjórum liðum sem saman mynda heildstæða mynd og vinna gegn frekari kólnun hagkerfisins. Það á eftir að útfæra einstaka liði aðgerðanna. Í ljósi aðstæðna er mikilvægt að það verði gert hratt og ákvörðunum hrint í framkvæmd án tafa. 

1. Mótvægisaðgerðir vegna COVID-19 sem voru kynntar í gær.

2. Vaxtalækkun Seðlabankans og breytingar á bindiskyldu sem var kynnt í morgun.

3. Innspýting í hagkerfið upp á 20-25 milljarða á ári næstu 3 árin til viðbótar við fyrri áform til að koma í veg fyrir frekari kólnun hagkerfisins. Verður kynnt í næstu viku.

4. Frekari aðgerðir Seðlabankans til að hleypa súrefni til fyrirtækja, meðal annars endurskoðun á eiginfjáraukum bankanna. Aðgerðir hafa verið boðaðar í þessum mánuði.

Byggja viðbrögð á sterkri stöðu

Svigrúm stjórnvalda til að bregðast við er meira en víða um heim og birtist í vaxtastigi, stórum gjaldeyrisforða, afgangi á rekstri ríkissjóðs undanfarin ár og lágri skuldastöðu hins opinbera. Viðnámsþróttur fjármálakerfisins og einkageirans er einnig mikill en dregið hefur verulega úr skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Staða fjármálakerfisins er einnig sterk en eiginfjár- og lausafjárstaða bankanna er góð.

Hagkerfið er í góðu ytra jafnvægi. Fyrir áfallið var afgangur af viðskiptajöfnuði eða um 172 ma.kr. í fyrra og erlend skuldastaða þjóðarbúsins jákvæð um 23% af landsframleiðslu. Hefur hrein skuldastaða við útlönd aldrei verið jafn góð og nú. Seðlabankinn ræður jafnframt yfir 800 milljarða króna gjaldeyrisforða til þess að geta tryggt stöðugleika krónunnar ef á þarf að halda. Merkir þetta m.a. að undirstöður krónunnar eru nokkuð sterkar og hættan á gjaldeyrisáfalli minni.

Hagkerfið er fjölbreyttara en áður. Fleiri stoðir eru nú undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins en áður var. Það er mikilvægt við núverandi aðstæður þar sem veiran vegur helst að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins af ferðamönnum. Gjaldeyrisöflun iðnaðar er ekki síst mikilvæg í þessum efnum.

Hagkerfið berskjaldað

Hagkerfið er berskjaldað fyrir áhrifum veirunnar enda eru þau til viðbótar við þau óveðursský sem fyrir voru yfir Íslandi. Tekjur af erlendum ferðamönnum eru stór hluti gjaldeyristekna þjóðarbúsins (35%) og áhrif þeirra tekna víðtæk í efnahagslífinu. Þetta gerir hagkerfið viðkvæmara fyrir áhrifum veirunnar. Nú þegar hefur dregið umtalsvert úr ferðamannafjölda og framboði flugferða til og frá landinu. Samdráttur í þessum hluta gjaldeyristekna hefur áhrif víða í hagkerfinu, s.s. störf, neyslu, fjárfestingu, gengi krónunnar, vexti og verðbólgu en allt eru þetta þættir sem snerta aðrar greinar hagkerfisins og hagkerfið í heild með einum eða öðrum hætti.

Höggið sem hagkerfið verður nú fyrir kemur á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu. Fyrir útbreiðslu veirunnar hér á landi og í helstu viðskiptalöndum var því spáð að hagvöxtur hér a landi yrði hægur í ár eða undir 1%. Slakinn í hagkerfinu hefur verið vaxandi frá því á síðasta ári – atvinnuleysi mikið og vaxandi og störfum að fækka. Veiran kemur því á viðkvæmum tíma fyrir hagkerfið hvað þetta varðar og ljóst að samdráttur verður í landsframleiðslu a.m.k. á fyrri hluta árs vegna hennar. Verkefnið nú er að tryggja að fyrirtækjum verði fleytt í gegnum þetta samdráttarskeið þannig að uppsveiflan geti orðið kröftug og sem fyrst.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar margþættar

Í gær tilkynnti ríkisstjórnin að hún myndi beita sér fyrir aðgerðum til að verja íslenskt efnahagslíf fyrir áhrifum COVID-19 veirunnar.

  • Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  • Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  • Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  • Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Til viðbótar eru aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari kólnun hagkerfisins sem felast í að aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu. Að sögn samgönguráðherra er um að ræða 20-25 ma.kr framkvæmdir á ári í þrjú ár fyrir utan það sem ríkisstjórnin er að horfa til á þessu ári. Um er að ræða framkvæmdir við vegi, hafnir og flugsamgöngur að sögn ráðherra.

Auk þessa eru aðgerðir sem felast í að innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.

Að lokum verður markaðsátaki hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.

Seðlabankinn lækkar vexti og rýmkar lausafjárstöðu bankanna

Í ljósi versnandi efnahagsástands í kjölfar útbreiðslu COVID-19 veirunnar ákvað Peningastefnunefnd Seðlabankans að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans eru þá komnir í 2,25%. Einnig ákvað nefndin að lækka meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnanna úr 1% niður í 0% og breyta meðferð á föstu bindiskyldunni. Með þessum aðgerðum er bankinn að rýmka lausafjárstöðu bankanna og gera þeim kleift að lána til fyrirtækja og tryggja lausafé.

Seðlabankar víða um heim hafa brugðist við COVID-19 veirunni með lækkun stýrivaxta. Einnig hafa bankar nýtt efnahagsreikning sinn og sett laust fé út í kerfið og þannig tryggt að bankar geti stutt við sína viðskiptavini. Jákvætt er að bankinn sé nú að fylgja fordæmum erlendra Seðlabanka og bregðast við þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru uppi í efnahagslífinu.

Verðbólga og verðbólguvæntingar við verðbólgumarkmið bankans gefur honum færi á að beita stýrivöxtum sínum til að örva hagkerfið til vaxtar. Í alþjóðlegum samanburði eru stýrivextir einnig háir sem gefur bankanum svigrúm til að beita því tæki til að mæta efnahagsamdrættinum. Þetta er afar hjálplegt við þessar aðstæður. 


mbl.is, 11. mars 2020.