Fréttasafn



25. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Tímasetning á verðhækkunum Landsnets með ólíkindum

Rætt er við Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í Markaðnum algerlega óskiljanlegt að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína en fyrirtækið tilkynnti stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi að frá og með janúar næstkomandi muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5%. „Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi og tímasetningin er með ólíkindum. Í fyrsta lagi vegna þess sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenska raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi með tilliti til kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi. Ástæða þess er að allir eru sammála um að vandinn sé raunverulegur en ekki er vitað hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir.“

Frumvarp á vorþingi um breytingu á raforkulögum

Í frétt Markaðarins er einnig rætt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra, sem segir að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verði á yfirstandandi greiningarvinnu sem snýr að tekjumörkum Landsnets. „Ráðgert er að leggja fram frumvarp á vorþingi um breytingu á raforkulögum, sem byggt verður á þessari greiningarvinnu, ásamt öðru efni sem unnið er að sem stendur. Um er að ræða faglega, óháða rýni á framangreindu regluverki og beitingu þess, með áherslu á samkeppnishæfni út frá flutnings- og dreifikostnaði raforku, tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni, og jöfnun orkukostnaðar í landinu.“

Úrbóta þörf á regluverki í kringum Landsnet

Jafnframt er rætt við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, en Landsvirkjun er stærsti eigandi Landsnets. „Þetta sýnir að úrbóta er þörf á regluverkinu í kringum Landsnet, á sama tíma að við reynum að standa með viðskiptavinum okkar á erfiðum tímum með auknum sveigjanleika og tímabundnum verðlækkunum þá hækka gjaldskrár Landsnets.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 25. nóvember 2020.