Fréttasafn



19. mar. 2018 Almennar fréttir

Tíminn er núna til að móta atvinnustefnu

Það þarf gott samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og annarra til að ráðast í þetta mikilvæga verkefni sem mótun atvinnustefnu er og leiða það til lykta. Samtök iðnaðarins eru tilbúin til samstarfs við að byggja upp til framtíðar, efla samkeppnishæfni Íslands og gera landið að eftirsóttum stað til atvinnureksturs og búsetu þannig að Ísland verði í fremstu röð. Þetta skrifar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Hann segir að tíminn sé núna til að hefjast handa og leggja eigi grunninn að atvinnustefnu á næstu mánuðum. 

Sigurður segir í greininni að atvinnustefna sé samhæfing aðgerða til þess að skapa aukin verðmæti, auka framleiðni og efla samkeppnishæfni. Þannig aukist lífsgæði á Íslandi. „Hugmyndir um atvinnustefnu hafa breyst í tímans rás. Í eina tíð þótti eðlilegt að ríkið væri umsvifamikill þátttakandi í atvinnulífinu. Síðar tók ríkið sér það hlutverk að velja sigurvegara, hampa eða styðja við ákveðnar greinar. Eftir það tók við tímabil einkavæðingar. Nútímaleg atvinnustefna snýst um að samhæfa aðgerðir og nýta fjármagn sem best til markvissrar uppbyggingar á samfélaginu í heild sinni.“

Þá kemur fram að í nýlegri rannsókn á vegum Alþjóðabankans hafi verið bent á að þeir fjórir þættir sem helst ákvarða breytileika í framleiðni á milli landa séu efnislegir innviðir, menntun, nýsköpun og skilvirkni markaða ásamt stofnanainnviðum. Þetta undirstriki mikilvægi þeirra fjögurra málefna sem Samtök iðnaðarins leggi áherslu á til að auka framleiðni og samkeppnishæfni landsins. „Þannig eykst velsæld. Umbætur í þessum fjórum mikilvægu málaflokkum gagnast því ekki eingöngu iðnaði heldur samfélaginu í heild sinni.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.