Fréttasafn11. jún. 2015 Almennar fréttir

Tjald atvinnulífsins opnar í Vatnsmýrinni í dag

Dagana 11. til 13. júní mun Hús atvinnulífsins flytja í Vatnsmýrina og reisa Tjald atvinnulífsins. Þar verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá um samspil öflugs atvinnulífs og góðra lífskjara. Allt áhugafólk um atvinnulífið er velkomið í tjaldið en uppátækið er hluti af Fundi fólksins sem fram fer í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess.

Tjald atvinnulífsins opnar á fimmtudaginn kl. 16 þegar forystufólk úr atvinnulífinu ræðir við gesti og gangandi. Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, setur dagskrána kl.17. Í kjölfarið tekur við tveggja komma tal þeirra Björgvins Guðmundssonar og Friðjóns R. Friðjónssonar, eiganda KOM. Þeir ætla að rýna í stöðu mála í atvinnulífinu og pólitíkinni. Einar Þorsteinsson, fréttamaður á RÚV, skellir stjórnendum úr atvinnulífinu á mínútugrillið og rekur úr þeim garnirnar og Ari Eldjárn verður með uppistand.

Boðið verður upp á 25 fróðlega, fjölbreytta og spennandi viðburði sem tengjast atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti. Það gerir knattspyrnan svo sannarlega en á föstudag mun Pétur Marteinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og einn eigenda Kex Hostel, hita upp fyrir landsleik Íslands og Tékklands með töflufundi og ræða um samband atvinnulífs og knattspyrnu við tjaldgesti. Svo verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu í tjaldinu.

Á laugardeginum verður brakandi fersk nýsköpun kynnt  á opnu tæknitorgi, ungir frumkvöðlar kynna hugmyndir sínar, boðið verður upp á ferska fiskisúpu og spennandi markaðsfyrirlestra í hádeginu, við spyrjum hvers virði viðskiptafrelsið er, fjöllum um ímynd atvinnulífsins, förum í ferðalag um sögu ferðaþjónustunnar, veltum upp tækifærum í íslenskri kvikmyndagerð, ræðum um jafnréttismál og sýnum hvernig teiknimyndir eru búnar til.

Fundur fólksins er þriggja daga líflega hátíð um samfélagsmál að norrænni fyrirmynd þar sem opin skoðanaskipti eru leiðarstefið. 

Dagskrá í Tjaldi atvinnulífsins 11.-13. júní (PDF)

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Frumtök, Samtök álframleiðenda og Litla Ísland eru gestgjafar í Tjaldi atvinnulífsins.

Fylgstu með lífinu í Tjaldi atvinnulífsins á Facebook!