Fréttasafn



8. des. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Tjón fyrir hagkerfið þegar skerða þarf afhendingu á raforku

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í kvöldfréttum RÚV þar sem fjallað er um skerðingu á afhendingu á raforku til stórnotenda. Sigríður segir að í fyrsta lagi sé bagalegt hversu skammur fyrirvari er á þessu. „Það lá fyrir að það yrðu einhverjar skerðingar í byrjun næsta árs en þetta kemur soldið bratt að. Gagnaversiðnaðurinn er sérstakur að því leyti að samkeppnin er gríðarleg alþjóðlega.“

Tekjumissir strax þegar gagnaver þurfa að loka á þjónustu við viðskiptavini

Sigríðu segir frá því í fréttinni að vitað sé um tilfelli þar sem íslensk gagnaver hafi því miður þurft að loka á þjónustu við viðskiptavini í dag. „Bara snemma í morgun eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir. Það þýðir auðvitað tekjumissir strax. Við skulum hafa í huga í þessu samhengi að gagnaversiðnaður skapar að minnsta kosti um 20 milljarða í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið árlega.“

Horfa þarf lengra fram í tímann

Þá kemur fram í fréttinni að áhrif þessa gætu orðið langvinn, viðskiptavinir gætu farið að efast um orkuöryggi hér á landi og erfitt gæti reynst að afla nýrra viðskiptavina. „Aðalatriðið er það að þetta er ákveðið tjón fyrir hagkerfið. Við þurfum að draga það þann lærdóm af þessu að horfa lengra fram í tímann.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á fréttina sem hefst á mínútu 1:46.

RÚV / ruv.is, 7. desember 2021.

RUV-07-12-2021_2