Tollar á kísilmálm standist ekki ákvæði EES-samningsins
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og varaformaður SI, ræddu um Evrópumál í Sprengisandi á Bylgjunni ásamt Dagbjörtu Hákonardóttur, alþingismanni Samfylkingarinnar. Þáttastjórnandinn Kristján Kristjánsson spurði þau meðal annars af hverju evruvextir væru ekki á Íslandi og hvort það myndu breyta einhverju fyrir almenning, t.d. í húsnæðismálum. Einnig var umræða um hvort EES-samningurinn væri í uppnámi ef Ísland fær ekki undanþágu frá verndaraðgerðum gagnvart innflutningi á kísilmálmi.
Í þættinum kom meðal annars fram í máli Sigurður að hann telji að það þurfi að staldra við EES-samninginn komi til tolla. Hann sagði stóra viku vera framundan. „Eins og komið var inn á, þá var ákvörðuninni frestað á föstudaginn, þannig að það er til marks um að það er ekki einhugur um þessar aðgerðir innan framkvæmdastjórnarinnar. Okkar fólk verður í Brussel í vikunni til þess að gæta okkar hagsmuna á vettvangi EFTA og EES. Ég veit að utanríkisráðherra verður þar líka, þannig að það verður mjög stórt.“ Hann telur stjórnvöld þurfa að endurskoða skuldbindingar sínar vegna EES-samningsins setji sambandið verndartolla á kísilmálm frá Íslandi.
Þorsteinn sagði meðal annars það vera sérstakt ef tollarnir verða staðfestir. „Ég fæ í fyrsta lagi ekki séð hvernig það gæti staðist ákvæði samningsins. En ef það yrði niðurstaðan að þá er það grundvallarbreyting á EES-samningnum sem slíkum. Það hlýtur að kalla á viðbrögð af hálfu íslenskra og norskra stjórnvalda hvernig eigi að bregðast við. Við slíkt ástand yrði hreinlega ekki unað.“ Hann sagði að þá væri ekki verið að virða grundvallaratriði EES-samningsins.
Á vef Vísis er hægt að hlusta á þáttinn.
Sprengisandur á Bylgjunni, 16. nóvember 2025.

