Fréttasafn11. jan. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Tryggja að fólk fái daglegar neysluvörur hnökralaust

Gunnar Sigurðarson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, segir í frétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu að í upphafi aðgerða gegn kórónuveirufaraldrinum hafi heilbrigðisyfirvöld skilgreint matvælaframleiðsluna í heild sem þjóðhagslega mikilvæga starfsemi og það hafi verið mikilvæg yfirlýsing. Einhver fyrirtæki í matvælaframleiðslu hafi fengið undanþágu frá samkomutakmörkunum þegar leyfilegur fjöldi fór niður í tuttugu. Það hafi bjargað því að ekki hafi komið til stöðvunar hjá stórum fyrirtækjum í þessari grein. „Vissulega hafa fyrirtæki verið í miklum vandræðum en náð að bjarga sér.“ Gunnar bætir við að stóru fyrirtækin í matvælaframleiðslu, til dæmis kjöti, mjólk og brauði, þekki sína ábyrgð. Þau líti á það sem samfélagslega skyldu sína að tryggja að fólkið fái daglegar neysluvörur hnökralaust. Til þess að svo megi verða hafi þau skipulagt framleiðsluna þannig að ekki þurfi að koma til lokunar þótt hluti starfsfólksins sé frá vinnu.

Fyrirtæki í matvælaiðnaði ekki þurft að loka eða draga úr þjónustu

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að ekki hafi komið til þess að stærstu matvælavinnslufyrirtæki landsins hafi þurft að loka eða draga úr þjónustu við viðskiptavini vegna þess að starfsmenn hafi þurft að fara í einangrun eða sóttkví vegna kórónuveirusmita. Sums staðar hafi staðið tæpt, sérstaklega í upphafi nýs árs. Þá segir að fulltrúar stórra afurðastöðva í landbúnaði og drykkjarvöruframleiðenda sem rætt hafi verið við segi að ekki hefði komið til það mikilla frátafa starfsfólks að ekki hafi verið hægt að veita viðskiptavinum fulla þjónustu. Þessi fyrirtæki séu þannig sett að margir starfsmenn geti unnið að heiman. Það eigi þó ekki við um framleiðsluna sjálfa, rekstur vöruhúsa og dreifingu. Það séu viðkvæmustu þættir starfseminnar. Í fréttinni er rætt við Sonju Scott, mannauðsstjóra CCEP á Íslandi, sem meðal annars framleiðir Coca-Cola. Hún segir að meira hafi verið um að starfsfólk hafi þurft að fara í einangrun og sóttkví að undanförnu. Fyrsta vika nýs árs hafi verið sérstaklega erfið en að tekist hafi að halda uppi fulltri þjónustu við viðskiptavini. Hún þakkar það sveigjanleika starfsfólks sem hafi farið á milli starfa og sumir komið úr fríum til að hjálpa til. Einnig er rætt við Pálma Vilhjálmsson, forstjóra Mjólkursamsölunnar, sem segir að framleiðslan hafi gengið vel framan af í faraldrinum en nú séu smitin orðin það víðtæk að erfiðara sé að kljást við þau. Stöðugt erfiðara sé að sinna störfunum en það hafi bjargast, hingað til.

Morgunblaðið / mbl.is, 11. janúar 2022.