Tryggja þarf að íslenskur iðnaður nái að starfa undir regluverkinu
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, segir í frétt RÚV að Samtök iðnaðarins hafi fundað með hagaðilum og HMS í lengri tíma út af CE-merkingum glugga. „Vandinn kannski við þetta regluverk er að það er innleitt hér 2014 og við höfum ítrekað bent á að eftirlit með byggingarvörum almennt á Íslandi hefur til þessa verið í mýflugumynd. Sem er auðvitað líka mjög vont fyrir neytendur.“ Í fréttinni kemur fram að hún bendi á að innviðir hér á landi séu í mörgum tilvikum ekki til staðar til að innleiða regluverkið og faggildingar. „Þar af leiðandi höfum við haft miklar áhyggjur af íslenskum iðnaði og smærri framleiðendum.“
Í frétt RÚV kemur fram að gluggaframleiðslan sé stærsti iðnaðurinn sem CE-merkingarnar hafi áhrif á en ekki sá eini. „Heilt yfir þá bara hafa innviðirnir ekki fylgt regluverkinu og fyrirtækin hér á landi eiga bara erfitt með að uppfylla þessi skilyrði,“ segir Jóhanna Klara og að íslenskur iðnaður hafi því verið í erfiðri stöðu við að uppfylla þessar kröfur frá Evrópu. Lausnin hafi verið að líta fram hjá kröfunum í einhvern tíma en það sé ekki hægt til lengdar. „Við verðum auðvitað að tryggja það að íslenskur iðnaður nái áfram að starfa hér undir því regluverki.“
RÚV, 3. september 2025.