Fréttasafn



24. sep. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök álframleiðenda á Íslandi

Tryggja þarf samkeppnishæfni álframleiðslu

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, skrifar um samkeppnishæfi álframleiðslu í Evrópu í grein sinni í ViðskiptaMogganum þar sem hann segir meðal annars að ál sé á lista ESB yfir hráefni sem séu mikilvæg „græna samkomulaginu“ sem feli í sér að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2050. Það skipti því máli fyrir loftslagið í heiminum að álframleiðsla haldist í Evrópu, auk þess sem framleiðslan skapar störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið. En til þess að álframleiðsla í Evrópu eigi sér sjálfbæra framtíð til langs tíma, þurfi að tryggja samkeppnishæfnina. 

Pétur segir að síðustu áratugi hafi vöxtur eftirspurnar áls verið viðvarandi, enda hafi það marga eiginleika sem ýti undir framþróun í heiminum. Nefna megi að álklæðningar dragi úr orkusóun í byggingum, umbúðir úr áli dragi úr matarsóun og lengi endingartíma lyfja, auk þess sem ál sé kjörið til endurvinnslu, þar sem það megi endurvinna aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Þá spili það stórt hlutverk í uppbyggingu flutningskerfisins vegna orkuskipta í heiminum og í léttingu farartækja, sem aftur dragi úr brennslu jarðefnaeldsneytis og geri rafbílum kleift að komast lengra á hleðslunni. En hann segir að engu að síður eigi álframleiðsla í Evrópu undir högg að sækja. Skýringarnar megi að hluta rekja til útbreiðslu Covid-19, en heimsfaraldurinn ýmist leiddi til lokunar eða hægði á framleiðslu víða í Evrópu, svo sem bílaframleiðslu og byggingarframkvæmdum, og fyrir vikið lækkaði ál í verði. Það sé því jákvætt að þó að markaðir hafi ekki að fullu tekið við sér, þá hafi verð þokast upp á við aftur og sé nær meðalverði ársins 2019.

Hætta á að álframleiðsla hrekist frá Evrópu ef of miklum kostnaði sé velt á greinina

Þá kemur fram í grein Péturs að vandinn til langs tíma lýti að framleiðslukostnaði í Evrópu. Nú hafi ESB nýlokið vinnu við endurskoðun á regluverki vegna niðurgreiðslna til orkusækins iðnaðar í Evrópu fyrir árið 2021- 2030. Niðurstaða þeirrar vinnu sé sú að álframleiðsla verði áfram á kolefnislekalista á sameiginlegum orkumarkaði ESB, en í því felist að framkvæmdastjórn ESB meti stöðuna þannig að hætta sé á að álframleiðsla hrekist frá Evrópu ef of miklum kostnaði sé velt á greinina. Röksemdirnar séu margvíslegar. Mestu varði að verð á áli ráðist á heimsmarkaði og að álið sé eins óháð því hvar það sé framleitt. Það þýði að ef framleiðslukostnaður áls hækkar á einum stað, þá skapist samkeppnisforskot annars staðar.

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni.