Fréttasafn



11. mar. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Tryggja þarf samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í breyttum heimi

„Heimurinn er að taka stakkaskiptum þar sem að stríð, gervigreindarkapphlaup og breyttir viðskiptahættir móta heimsmyndina. Þannig að við horfum til þess hvað við þurfum að gera og hvernig við þurfum að bregðast við,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt RÚV. Hann segir stjórnvöld þurfa að róa öllum árum að því að tryggja samkeppnishæfni íslensks iðnaðar og atvinnulífs í gjörbreyttum heimi. Til þess þurfi 9.000 tæknisérfræðinga til starfa innan fimm ára ella dragist Ísland aftur úr og tapi í nýju kapphlaupi, sem knúið er af gervigreind. 

Í fréttinni kemur fram að það snúi að viðnámsþrótti og getu samfélagsins til að takast á við áður óþekktar aðstæður og bendir hann á að innan fimm ára verði hugverkaiðnaður verðmætasta útflutningsstoð Íslands. „En það mun þurfa fjölda manns erlendis frá til þess að anna þessari þörf, hér eftir sem hingað til.“

RÚV vefur / RÚV fréttir, 6. mars 2025.