Fréttasafn



23. maí 2023 Almennar fréttir

Tveir nýir starfsmenn hjá SI

Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir til Samtaka iðnaðarins og hafa þegar hafið störf hjá samtökunum. Erla Tinna Stefánsdóttir hefur verið ráðin viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og Hulda B. Kjærnested Baldursdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum hjá SI.

Erla Tinna er með BA og ML gráður í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að hafa verið í námi við háskólann í Jóhannesarborg í Suður-Afríku og háskólana í Burgos og Malaga á Spáni. Hún starfaði áður sem sérfræðingur í eftirliti með vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá Skattinum og sérfræðingur á eftirlitssviði og í alþjóðadeild Ríkisskattstjóra.

Hulda er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MS gráðu í stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Auk þess er Hulda með kennsluréttindi frá Háskóla Íslands. Áður starfaði hún sem kennari hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð og við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Einnig starfaði Hulda um árabil hjá Tækniskólanum þar sem hún var meðal annars verkefnastjóri K2 stúdentsbrautar Tækniskólans.