Fréttasafn



29. nóv. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Um 100 manns frá Íslandi á Slush ráðstefnunni í Helsinki

Um 100 manns frá Íslandi taka þátt í Slush tækni- og sprotaráðstefnunni sem haldin er í Helsinki þessa dagana en ferðina skipulögðu Íslandsstofa og Icelandic Startups. Í frétt í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Salóme Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandic Startups, að áhuginn á ráðstefnunni aukist sífellt og hún telji þetta vera stærstu sendinefnd sprotafyrirtækja og fjárfesta sem farið hefur frá Íslandi en hópurinn samanstendur af um 100 manns frá 27 sprotafyrirtækjum og 5 fjárfestingasjóðum, fulltrúum utanríkisráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins, Íslandsstofu, Útón, Northstack, Deloitte, Ský/UTmessunnar auk nýsköpunar- og frumkvöðlanefnda Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. 

Fulltrúi Samtaka iðnaðarins er Bryndís Jónatansdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði SI. Það eru margir af félagsmönnum SI á ráðstefnunni, meðal þeirra eru Samtök leikjaframleiðenda (IGI) og Samtök sprotafyrirtækja. Um 17.500 gestir eru á ráðstefnunni. 

Sendiherra Íslands í Finnlandi, Kristín Árnadóttir, tók á móti hópnum í sendiherrabústaðnum þar sem myndin var tekin. Mynd: Icelandic Startups.

Hér er hægt að sjá hverjir fulltrúar Íslands eru á ráðstefnunni.