Fréttasafn



8. nóv. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Um 100 manns starfa hjá Prentmet Odda

Hjá sameinuðu félagi Prentmet Odda starfa um 100 manns en gengið hefur verið frá kaupum Prentmets á Prentsmiðjunni Odda. Aðsetur fyrirtækisins verður bæði á Lynghálsi 1 og Höfðabakka 7 fyrst um sinn. Í fréttatilkynningu segir að íslenskur prentiðnaður sé í harðri alþjóðlegri samkeppni þar sem samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu hafi beðið hnekki, m.a. vegna gengis- og launaþróunar. Sameinað fyrirtæki munu snúa vörn í sókn til að tryggja framleiðslu á prentverki á Íslandi til lengri tíma. Með kaupunum verði til sterkt fyrirtæki sem bjóði upp á heildarlausnir í prentverki og fyrsta flokks þjónustu byggt á áratuga reynslu og þekkingu starfsfólks. Þá kemur fram að Prentmet Oddi sé stærsta fyrirtæki landsins í vinnslu umbúða og eina fyrirtækið sem fullvinnur harðspjaldabækur. Á næstu misserum verði unnið að því að styrkja tækjakost fyrirtækisins enn frekar til að bæta þjónustu. Jafnframt segir að fyrirtækið sé Svansvottað og í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsu. Stefnt sé að því að vera leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum og fyrirtækið haldi áfram að stuðla að sjálfbærni og skógrækt.