Fréttasafn



28. apr. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Umbætur í nýsköpun efla samkeppnishæfni

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar-  og hugverkasviðs SI, segir í grein í Markaðnum að fjárfesting í nýsköpun hafi áhrif á samkeppnishæfni Íslands. Ísland eigi að vera í fremstu röð meðal þjóða heims þegar kemur að nýsköpun og þarf að styrkja þjóðarbúið í harðri alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði enda sé hugvit án landamæra. 

Miklar umbætur á árinu 2020

Sigríður segir að á árinu 2020 hafi orðið mikilvægar umbætur á sviði nýsköpunar og beri þar hæst hækkun á hlutfalli og þaki á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar. Fleira komi til; nýr hvatasjóður frumkvöðlafjárfestinga, Kría, var festur í lög og framlög til Tækniþróunarsjóðs aukin. Hún segir þessar aðgerðir mikið framfaraskref og hafi þær þegar haft áhrif, enda sé um að ræða jákvæða, efnahagslega hvata til fjárfestingar í nýsköpun á forsendum markaðarins. Fjölmörg dæmi séu til að mynda um fyrirtæki í hugverkaiðnaði sem réðust strax í auknar fjárfestingar í kjölfar hækkunar á endurgreiðslum og hafði það í för með sér að ný, verðmæt störf urðu til.

Fimm umbætur til að ná frekari árangri

Í greininni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi lagt til umbætur á sviði nýsköpunar til að ná enn frekari árangri. Í fyrsta lagi þurfi að gera hækkun þaks og endurgreiðsluhlutfalls vegna rannsókna og þróunarkostnaðar ótímabundið. Í öðru lagi þurfi að hækka skattafrádrátt vegna fjárfestinga einstaklinga í sprotafyrirtækjum úr 75% í 100% til að virkja einkafjármagn enn frekar í fjárfestingar í frumkvöðlastarfsemi. Í þriðja lagi þurfi að auka framlög til Tækniþróunarsjóðs og taka mið af mælanlegum markmiðum um úthlutunarhlutfall, þannig að framlög taki mið af eftirspurn. Með þeim hætti sé unnt að bregðast við háu atvinnuleysi og tilheyrandi aukinni aðsókn í sjóðinn hverju sinni. Í fjórða lagi þurfi að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til Íslands með rýmkun á heimild til skattafrádráttar og einföldun ferla. Í fimmta lagi þurfi að markaðssetja Ísland á breiðari grunni, sem nýsköpunarland og beina því sérstaklega að fjárfestum, frumkvöðlum og erlendum sérfræðingum.

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigríður að árangur í nýsköpun styðji við frekari verðmætasköpun og með þessum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Markaðurinn / Frettabladid.is, 28. apríl 2021.

Markadurinn-28-04-2021