Fréttasafn29. apr. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Umbætur í orku- og umhverfismálum efla samkeppnishæfni

Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, segir í grein í Morgunblaðinu að orku- og umhverfismál hafi áhrif á samkeppnishæfni Íslands og leiðin að minni losun gróðurhúsalofttegunda sé eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans. Hann segir mikinn árangur í þeirri baráttu hafi náðst hér á landi á síðustu áratugum, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Þá hafi atvinnulífið leitað leiða á eigin forsendum til að breyta framleiðsluferlum eða öðrum þáttum til að lágmarka áhrif á umhverfið. Þessi aukna áhersla hafi leitt og muni áfram leiða til þróunar í grænni tækni, umhverfisvænni framleiðsluferlum og orkuskiptum í samgöngum svo dæmi séu tekin. Hann segir metnaðarfull markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála verði áskorun fyrir samfélagið en að sama skapi verði til tækifæri til þess að þróa nýja tækni og aðferðir til að gera hluti öðruvísi og betur. Ýta þurfi undir slíka framþróun með jákvæðum hvötum í stað þess að einblína alfarið á boð og bönn. 

Fjórar umbætur til að ná enn frekari árangri

Í greininni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi lagt til umbætur í orku- og umhverfismálum til að ná enn frekari árangri á þessu sviði. Í fyrsta lagi sé nauðsynlegt að breyta tilgangi og markmiðum Loftslagssjóðs þannig að sjóðurinn fjármagni umbreytingu í atvinnulífi sem dragi úr losun. Tekjur vegna sölu á losunarheimildum renni þannig óskiptar í sjóðinn. Í öðru lagi sé mikilvægt að skapa fjárhagslega hvata til að stuðla að umhverfisvænum breytingum. Horfa ætti til fordæma erlendis, s.s. starfsemi hins norska ENOVA-sjóðs sem styrkir verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þróa orku- og umhverfistækni og efla raforkuöryggi. Í þriðja lagi verði að draga úr flækjustigi í stjórnsýslu vegna uppbyggingar í raforkukerfinu, s.s. hvað varðar leyfisveitingar og umhverfismat. Einfalda þurfi málsmeðferð með rafrænum lausnum fyrir leyfisveitingar framkvæmda, skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum og aðra stjórnsýsluferla. Þá þurfi að samræma ferli, forðast endurtekningar á ferlum og einfalda kæruheimildir. Síðast en ekki síst þurfi að vinna að því að gera fyrirtækjum kleift að framleiða raforku úr auðlindastraumum í starfsemi sinni og selja inn á almennan markað. Ryðja þurfi úr vegi lagalegum hindrunum sem og samningsbundnum takmörkunum til að koma slíku kerfi á og afhendingu inn á almennan raforkumarkað. Tækifærin séu til staðar og því þurfi að koma breytingum á sem allra fyrst til að tryggja enn frekar framboð á raforku og efla raforkuöryggi.

Í niðurlagi greinarinnar segir Lárus að árangur í orku- og umhverfismálum styðji við nýsköpun og frekari verðmætasköpun og með þessum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 29. apríl 2021. 

Morgunbladid-29-04-2021_1