Umbótatillögur um skilvirkari húsnæðisuppbyggingu
Starfshópur innviðaráðherra um einn feril húsnæðisuppbyggingar hefur lokið störfum og skilað skýrslu með tillögum að umbótum varðandi skilvirkari húsnæðisuppbyggingu. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá innviðaráðuneytinu, Skipulagsstofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum iðnaðarins. Verkefni hópsins fólst í að taka saman og fara yfir niðurstöður þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram undanfarin ár og varðar greiningu á ferlum skipulags- og byggingarmála tengdum uppbyggingu húsnæðis.
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að meðal umbóta sem starfshópurinn leggi til sé að:
- gæta að góðu samræmi milli svæðis-, aðalskipulags og húsnæðisáætlunar hvers sveitarfélags svo tryggt sé að skipulagsvinna hefjist tímanlega sem og hönnun og úthlutun lóða til að mæta íbúðaþörf í takt við áætlaða fólksfjölgun.
- horfa til þess að samræma reglur sveitarfélaga um gjaldtöku, úthlutun lóða, tímasetningu gjaldtöku, innviðasamninga o.fl. (samræming á reglum ekki gjaldi).
- horfa til þess að fara í að útfæra minniháttar breytingar á skipulagslögum sem fela í sér styttingu á málsmeðferðartíma.
- skoða ávinning þess að sameina aðgengi að gögnum í eina miðlæga vefgátt, s.s. á island.is, þar sem hægt væri að nálgast á einum stað allar aðgengilegar upplýsingar sem varða húsnæðisuppbyggingu, s.s. skipulag, lóðir, byggingarleyfi, byggingarhæfi lóða, skráningu fasteigna o.fl.
- rýna hvort að sveitarfélög hafi næga faglega innviði til að sinna hlutverki sínu er kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, t.d. varðandi gerð og yfirferð skipulags ásamt yfirferð gagna er varða byggingarleyfi.