Fréttasafn4. jún. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Umbunað fyrir að vera með iðnnema á námssamningi

Veitur, Samtök iðnaðarins og Skólameistarafélag Íslands hafa tekið höndum saman um útfærslu á því hvernig umbuna megi verktökum í útboðum Veitna fyrir að vera með iðnnema á námssamningi. Um er að ræða tímamót í iðnnámi á Íslandi þar sem þetta er í fyrsta skipti sem verkkaupi mun umbuna fyrir það að verktakar hafi iðnnema í vinnu. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis á Grand Hótel Reykjavík í gær. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra var viðstödd undirritunina, sem og nokkrir iðnnemar sem eru á starfssamningi hjá Veitum.

Í nýrri greiningu SI kemur fram að iðnnemum hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár sem þakka má öflugu kynningarstarfi og laga- og reglugerðarbreytingum stjórnvalda. Á árabilinu 2017 til 2020 hefur orðið 25% aukning í brautskráningum iðnnema og skólaárið 2019/2020 var met sett í fjölda samþykktra umsókna í iðnnám þegar 1.852 umsóknir voru samþykktar. Með auknum fjölda iðnnema fjölgar þeim nemendum sem þurfa að komast á námssamning til að ljúka sinni menntun.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna: „Veitur ætla að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að gefa þeim verktökum forskot sem eru með iðnnema þegar kemur að útboðum. Veitur eru fimmti stærsti framkvæmdaaðili landsins sé mið tekið af þeim fjárhæðum sem verja á í fjárfestingar á Íslandi í ár og vilja skapa gott fordæmi fyrir aðra stóra verkkaupa að fylgja.“

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI: „Samtök iðnaðarins fagna þessu framtaki og telja það virka sem hvatningu til atvinnurekenda að gera fleiri námssamninga við iðnnema. Við vitum að auka þarf framboð á námssamningum til að tryggja að nemendum sé gert kleift að ljúka námi á réttum tíma og þetta er mikilvægt skref í þeirri vegferð.“

Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands: „Við teljum það brýnt að iðnnemar geti lokið námi sínu og ekki verði töf á verklegum þætti námsins. Þess vegna er þetta framtak Veitna einstaklega mikilvægt og hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki að taka við nemendum í starfsnám.“

Myndin er tekin við undirritun viljayfirlýsingarinnar á Grand Hótel Reykjavík, talið frá vinstri í fremri röð, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, og Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands. Í aftari röð eru  Ragnheiður Ósk Svansdóttir, Heiðrún Björk Þráinsdóttir, Emilía Björt Gísladóttir, Ólafur Jóhann Andrason og Breki Hákonarson, starfsnemar hjá Veitum.

Mynd/Atli Már Hafsteinsson.