Fréttasafn6. des. 2018 Almennar fréttir

Umferðartafir kosta milljarða

Í nýrri greiningu SI kemur fram að umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu kosti yfir 15 milljarða króna en tafir og slys í umferðinni hafa aukist til muna á síðustu árum. Þar af hefur atvinnulífið borið um 6 milljarða króna vegna tapaðs vinnutíma og almenningur um 9 milljarða króna vegna tapaðs frítíma. Í greiningunni segir að vöxtur í umferð hafi verið hraður á sama tíma og viðhaldi í vegamálum hafi verið verulega ábótavant og lítið verið um nýfjárfestingar. Ástandið sé ekki síst slæmt á höfuðborgarsvæðinu þar sem tafirnar eru mestar og slysin flest.

Áætlað er að um 19.000 klukkustundum hafi verið sóað í umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu á hverjum virkum degi árið 2017 eða um 6 milljónir klukkustunda á ári miðað við algengar forsendur um meðalfjölda í bíl. Lætur því nærri að hver íbúi höfuðborgarinnar hafi eytt ígildi rúmlega þriggja vinnudaga í umferðartöfum á því ári. Í greiningunni segir að um sé að ræða meðaltal en ljóst sé að m.a. íbúar í úthverfum borgarinnar sem vinna miðsvæðis hafi verið að sóa mun meiri tíma í umferðartöfum á götum borgarinnar.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI. 

Umferdartafir-mynd