Fréttasafn19. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Umhverfis- og auðlindafræði er fengur fyrir atvinnulífið

Á degi íslenskrar náttúru föstudaginn 16. september síðastliðinn var boðað til 10 ára afmælishátíðar umhverfis- og auðlindafræða HÍ í Öskju. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, opnaði dagskránna. Guðrún Pétursdóttir og Brynhildur Davíðsdóttir fluttu erindi auk þess sem örerindi voru flutt frá brautskráðum nemendum. Þá var efnt til pallborðsumræðu með yfirskriftinni „Hvernig líta næstu 10 ár út?“. Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI, var meðal þátttakenda í umræðunum. Hún sagði að nám í umhverfis- og auðlindafræði væri fengur fyrir atvinnulífið. Viðfangsefnin séu þverfagleg og því kostur að til sé vettvangur innan háskólans fyrir ólíkar greinar til að mætast enda er oft á tíðum fjallað um flókin viðfangsefni. Fólk með fjölþættan bakgrunn mætist í deildinni og deilir þekkingu og reynslu úr t.d. líffræði, verkfræði og lögfræði. Öll þessi svið þurfi að vinna saman til að ná árangri.

Bryndís sagðist telja að rannsóknir á umhverfismálum og atvinnulífi séu gríðarlega mikilvægar fyrir framþróun og atvinnusköpun. Þegar litið sé yfir verkefni sem þegar hafa verið unnin innan deildarinnar væri ánægjulegt að sjá að mörg þeirra snúa að því að rannsaka umhverfismál fyrirtækja. Hún nefndi sem dæmi nauðsyn þess að greina og þekkja drifkrafta og hindranir fyrirtækja við innleiðingu umhverfisstjórnunar og samfélagslegrar ábyrgðar, til að við getum náð enn lengra. Bryndís sagði ekki síður mikilvægt að stundaðar væru rannsóknir á vistferilgreiningum, markaðsmálum, úrgangsmálum og öðrum þáttum sem snúa að rekstri fyrirtækja. Hún sagði mikil tækifæri vera til nýsköpunar þegar kemur að grænni tækni og lausnum til að takast á við áskoranir í umhverfismálum og það væri forvitnilegt að sjá hvernig nemendur í umhverfis- og auðlindafræði munu takast á við það á næstu árum.