Fréttasafn



6. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Umræða SSP um samfélagslega ábyrgð sprotafyrirtækja

Samfélagsleg ábyrgð sprotafyrirtækja var helsta umræðuefnið á opnum aðalfundi Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í gær. Á fundinum var ný stjórn samtakanna kjörin auk þess sem boðið var upp á erindi frá Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Hrund Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, Sigurði Markússyni, verkefnastjóra hjá Landsvirkjun, og Kristni Aspelund, stofnanda sprotans Ankeri Solutions.

Á fundinum var Íris Ólafsdóttir, eigandi Kúlu 3D, endurkjörin formaður stjórnar samtakanna en hún situr nú sitt þriðja kjörtímabil. Þá voru kjörnir í stjórn þrír meðstjórnendur, þau Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, Kolbrún Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Florealis, og Stefán Baxter, sem komið hefur að stofnun fjölda sprotafyrirtækja á síðastliðnum árum. Fyrir voru í stjórn Fida Abu Libdeh, stofnandi GeoSilica, Guðmundur Óskarsson, stofnandi MyTweetAlerts, og Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri og stofnandi Ankeri Solutions, en þau sitja nú annað ár kjörtímabils síns.

Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum tóku við áhugaverð erindi um samfélagslega ábyrgð sprotafyrirtækja og framtíð nýsköpunar á Íslandi. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, opnaði erindaröðina og undirstrikaði hann mikilvægi nýsköpunar fyrir atvinnulífið og sem lausn við ýmsum samfélagslegum vandamálum sem að heimsbyggðinni steðja, svo sem loftslagsmál og öldrun þjóða.

Því næst steig á stokk Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, en hún fór yfir hlutverk Festu, loftslagsmál og tækifæri til hagnaðar þegar fyrirtæki leggja áherslu á sjálfbærni.

Verkefnastjóri Landsvirkjunar, Sigurður Markússon, hélt erindi um matvælaiðnað og þau fjölmörgu tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Kristinn Aspelund lauk erindaröðinni með nokkrum orðum um Ankeri Solutions en markmið fyrirtækisins er að tengja saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Kristinn sagði samfélagsábyrgð hafa verið innbyggða í DNA fyrirtækisins frá upphafi og hvatti aðra sprota í herberginu til þess að taka þessi mál föstum tökum frá byrjun.

Eftir fundinn gafst fundargestum tækifæri að ræða sín á milli um þær áskoranir sem sprotafyrirtæki standa frammi fyrir.  

IMG_3047Íris Ólafsdóttir, eigandi Kúlu 3D og formaður SSP.

IMG_3053Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. 

IMG_3062Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

IMG_3065Sigurður Markússon, verkefnastjóri Landsvirkjunar.

IMG_3078Kristinn Aspelund, Ankeri Solutions.

IMG_3090_1581001835966Ný stjórn SSP, talið frá vinstri, Fida Abu Libdeh - GeoSilica, Guðmundur Óskarsson - MyTwwetAlerts, Kristinn Aspelund - Ankeri, Íris Ólafsdóttir - Kúla 3d, Salóme Guðmundsdóttir - Icelandic Startups, Kolbrún Hrafnkelsdóttir - Florealis og Stefán Baxter - Frumkvöðull.