Umræða um ljósvist og útsýni í byggingarreglugerð
Samtök iðnaðarins stóðu fyrir fundi um ljósvist fimmtudaginn 23. janúar. Tilefni fundarins voru drög að breytingu á byggingarreglugerð sem varða ljósvist og útsýni.
Á fundinum kynnti Ásta Logadóttir Ph.D., lýsingarsérfræðingur hjá Lotu og fulltrúi í samráðshóp sem vann tillögur að umræddum breytingum, efni draganna og helstu breytingartillögur. Þá fór Gunnar Atli Gunnarsson, lögmaður á Landslögum og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, yfir mögulegar afleiðingar þess ef drögin taka gildi með óbreyttum hætti 1. mars nk., líkt og gert er ráð fyrir í drögunum. Hann velti m.a. upp mögulegri afturvirkni, hvort slíkt fyrirkomulag myndi teljast góð, fyrirsjáanleg og vönduð stjórnsýsla og hvort gildistakan gæti að óbreyttu leitt til bótaskyldu í einhverjum tilvikum. Að lokum fór Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar, yfir samspil fyrirhugaðra breytinga og gildistöku við skipulagsferli og -löggjöf. Að hans mati yrði að skoða samhliða með hvaða hætti skipulagskröfur yrðu aðlagaðar að breytingunum. Góðar umræður mynduðust í lok hvers erindis.
Fundurinn, sem fór fram í Húsi atvinnulífsins var einungis opinn félagsmönnum SI sem gátu einnig fylgst með í streymi. Fundarstjóri var Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.
Ásta Logadóttir, lýsingarsérfræðingur hjá Lotu.
Gunnar Atli Gunnarssonar, lögmaður á Landslögum.
Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar.
Eyrún Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri.