Umræðufundur um gögn í menntamálum
Fulltrúi SI, Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, verkefnastjóri í mennta- og mannauðsmálum, sat fjölmennan málfund um gögn í menntamálum sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir í dag í húsakynnum skólans í Stakkahlíð. Tilgangur fundarins var að fara yfir tilvist, söfnun, varðveislu og aðgengi að gögnum á sviði menntamála. Á fundinum var meðal annars rætt um ábyrgð og hlutverk einstakra stofnana, um ólíkar tegundir gagna, m.a. tengt mælaborðum eða öðrum ámóta gögnum, um kostnaðarhliðina, um samráð á milli þeirra sem sjá um gagnasöfnun og greiða fyrir hana og ólíkra hagsmuna þeirra sem móta stefnu, annast daglegt starf eða nota gögn í fræðilegu samhengi. Ljóst var af umræðum á fundinum að margar stofnanir hafa kallað eftir gögnum sem eru til en erfitt hefur verið að nálgast.
Í innleggi Huldu Birnu á fundinum kom meðal annars fram að að gögn um höfnun um skólavist væri nauðsynleg svo hægt væri að sjá hversu margir í hópnum 18 ára og eldri komast ekki í starfsnám. Einnig þyrfti gögn um hversu stór hópur væri sem kæmist í háskóla en ekki í starfsnám. Hún sagði að horfa þyrfti til tengsla við starf í leik-, grunn-, framhalds-, og háskólum og fjölþætta menntun fullorðinna.