Fréttasafn



16. okt. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Innviðir Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Umsögn SI um fjárlög og fjármálaáætlun

Samtök iðnaðarins lýsa ánægju sinni með helstu áherslur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 og þingsályktun um fjármálaáætlun 2021-2025, sér í lagi þær fyrirætlanir stjórnvalda að nýta þau tækifæri sem góð staða ríkissjóðs gefur til að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn SI sem send hefur verið til fjárlaganefndar.  Í umsögninni segir að samtökin séu einnig ánægð með þær áherslur sem birtast í frumvarpinu á samkeppnishæfni og aukna framleiðni með áherslu á nýsköpun, innviði, menntun og starfsumhverfi fyrirtækja. Með því að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga og með réttum áherslum sé hægt að gera tímabil núverandi niðursveiflu eins stutt og mögulegt er og tryggja að hagkerfið rísi aftur upp með kröftugum hætti. 

Í umsögninni kemur fram að SI hrósa stjórnvöldum fyrir stóraukna áhersla á stafræna þróun hjá hinu opinbera sem sé jákvætt og tímabært skref. Þessu fagni samtökin enda muni stafræn bylting ríkisins hafa jákvæð áhrif, fela í sér hagræðingu til skemmri og lengri tíma og auka skilvirkni sem geti skilað aukinni samkeppnishæfni. Þarna sé fjármunum því vel varið. 

Kallað eftir atvinnustefnu stjórnvalda

Í umsögninni er þó bent á ýmis atriði sem betur mættu fara að mati samtakanna. Þar segir að samtökin hafi skorað á stjórnvöld að varða leið vaxtar með nýsköpun sem drifkraft. Þannig megi tryggja viðspyrnu og fjölga störfum sem leiði okkur út úr núverandi efnahagsþrengingum og inn í nýtt, sjálfbært hagvaxtarskeið. Í þessu samhengi hafi SI kallað eftir atvinnustefnu stjórnvalda auk þess sem stjórnvöld verði virkari í því að sækja tækifæri. 

Nauðsynleg hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð

Þá kemur fram í umsögninni að hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð sé nauðsynleg, sérstaklega á tímum mikils atvinnuleysis, og hvetja SI fjárlaganefnd til að skoða enn frekari hækkun framlaga til sjóðsins. SI hvetja Alþingi til að festa í sessi bráðabirgðaákvæði í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nánar tiltekið hækkun á endurgreiðsluþaki og hlutfalli endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar. Sú breyting gæti skipt sköpum varðandi ákvarðanatöku í atvinnulífi og hrint af stað stærri þróunarverkefnum. Þá er einnig hvatt til þess að ákvæði um heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í vísísjóðum sem hækkuð var úr 20% í 35% í vor verði gerð ótímabundin. Muni það styðja við markmiðin með Kríu fjárfestingasjóði.

Mikilvægt að tryggja að hlutdeild fjárfestinga lækki ekki

Í ljósi þeirra fjölmörgu sterku raka sem eru fyrir fjárfestingum í innviðum fagna SI sérstaklega því fjárfestingarátaki stjórnvalda sem birtist í frumvarpi til fjárlaga og þingsályktun til fjármálaáætlunar. Í umsögninni segir að gæta þurfi að því að ekki myndist viðlíka ástand og hefur verið á síðustu árum þar sem litlum fjármunum hafi verið varið í fjárfestingar og viðhald á þessu sviði. Í því sambandi lýsa SI áhyggjum af því sem fram kemur í fjármálaáætluninni að hlutdeild fjárfestinga hins opinbera af landsframleiðslu muni lækka á næstu árum. Mikilvægt sé að tryggja að svo verði ekki.

Frekari lækkun tryggingagjalds nauðsynleg

Í umsögninni segir að það sé ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi ákveðið að lækka tryggingagjaldið sem lið í að stuðla að efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Um sé að ræða tímabundna ráðstöfun sem gildi í eitt ár eða til ársloka 2021. Leggja SI áherslu á mikilvægi þess að lækka gjaldið til lengri tíma. Tryggingagjaldið leggst á launagreiðslur og myndi lækkun gjaldsins auka svigrúm fyrirtækja og auðvelda þeim að sporna gegn fækkun starfsfólks í niðursveiflunni. Frekari lækkun tryggingagjaldsins sé því nauðsynleg aðgerð fyrir íslenskan vinnumarkað.

Óásættanleg aukin umsvif ríkisins á samkeppnismörkuðum

Þá benda SI á að umsvif ríkisins á samkeppnismörkuðum hafi aukist undanfarin ár og séu að mati samtakanna óásættanleg þar sem þau dragi kraft úr atvinnulífinu. Mikilvægt sé að dregið sé úr umsvifum hins opinbera á samkeppnismarkaði. Í umsögninni segir að skref tekin í þá átt að draga úr þeim umsvifum séu mikilvæg og fagni samtökin þeim skrefum sem fyrirhugað sé að taka á næstu mánuðum með því að draga úr samkeppnisrekstri hins opinbera á sviði prófana og mælinga. Samtökin leggja þó áherslu á að gengið sé lengra, gerð sé heildstæð greining á samkeppnisrekstri stjórnvalda og metið sé í hverju tilviki hvort þörf sé á slíkum rekstri og þá hvort þess sé gætt að full aðgreining sé á milli opinbers rekstrar og samkeppnisrekstrar.

Hækkun kolefnisgjalda kemur illa við fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni

Í umsögninni segir að samtökin leggist almennt ekki gegn hækkun kolefnisgjalds á eldsneyti í almennum samgöngum á landi en benda á að hækkun kolefnisgjaldsins komi hins vegar illa við fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Hækkunin skerði verulega samkeppnishæfni þeirra gagnvart keppinautum í nálægum löndum sem ekki þurfi að standa undir sambærilegum gjöldum. Með álagningu kolefnisgjalda af ýmsum toga þá sé sú hætta til staðar að verið sé að hygla fyrirtækjum utan þeirra ríkja sem ekki greiða nein slík gjöld en séu að jafnaði með mun óhagstæðara kolefnisfótspor og vísað í álframleiðslu í Kína. Í umsögninni segir að auknar álögur á atvinnulífið og hvatar sem fyrirtæki hafa ekki möguleika á að fylgja eftir séu í andstöðu við það markmið ríkisstjórnarinnar að auka samkeppnishæfni Íslands. Þá kemur fram það mat samtakanna að mikilvægt sé að hugmyndir að útfærslu umhverfisskatta og ráðstöfun þeirra tekna verði betrumbættar og meðal annars vísað í Enova-sjóðinn í Noregi sem er starfræktur af þarlendum stjórnvöldum með það að markmiði að koma á umhverfisvænum breytingum í norsku samfélagi. 

Mótmæla hækkun krónutölugjalda

Í umsögninni kemur jafnframt fram að Samtök iðnaðarins gagnrýna áform hins opinbera um hækkun krónutölugjalda á olíugjaldi, bensíngjaldi, kílómetragjaldi, bifreiðagjaldi og áfengis- og tóbaksgjaldi og leggja samtökin til að hækkun verði dregin til baka. Í umsögninni segir að síðustu ár hafi þessi gjöld hækkað árlega um 2,5% sem hafi komið mjög niður á íslenskum framleiðendum og neytendum. Í þessu samhengi vilji samtökin minna á eitt meginmarkmið lífskjarasamninganna um stöðugt verðlag og varðveislu kaupmáttar fyrir almenning í landinu. Rekstrarumhverfi fyrirtækja versni einnig með auknum álögum sem komi niður á samkeppnishæfni þeirra. Í umsögninni segir að til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja eða hið minnsta draga ekki úr henni sé mikilvægt að halda aftur af hækkunum á sköttum og gjöldum nú þegar við siglum inn í samdráttarskeið. Langstærstur hluti íslenskra fyrirtækja hafi glímt og glímir enn við efnahagslegar afleiðingar af völdum COVID. Á meðan hið opinbera hafi verið að styðja við íslenskt atvinnulíf, með einum eða öðrum hætti, að mæta þessum afleiðingum þá skjóti það skökku við að á hinn bóginn sé hið opinbera að leggja auknar álögur á fyrirtækin. Stjórnvöld ættu öðru fremur að draga úr hömlum og álögum á þessum tímapunkti til að styrkja íslenskt atvinnulíf sem skili sér síðan í aukinni hagsæld. 

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.