12. jún. 2018 Almennar fréttir Menntun

Umsóknum um verknám fjölgar

Þeim fjölgar sem sækja um verknám úr 12% í 17% nú þegar umsóknarfrestur um skólavist í framhaldsskólum fyrir haustið hefur runnið út. Þetta er fagnaðarefni fyrir Samtök iðnaðarins þar sem skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki. Samtök iðnaðarins hafa með markvissum hætti beitt sér fyrir fjölgun iðnmenntaðra ekki síst með umbótum á náminu, með umfjöllun og kynningu á verk- og starfsnámi þar sem dregnir eru fram þeir fjölbreyttu möguleika sem slíkt nám felur í sér. Þar má nefna til dæmis að námið er alþjóðlegt og gefur möguleika á að starfa í öðrum löndum, atvinnuhorfur eru góðar, um er að ræða almennt vel launuð störf auk þess sem námið gefur möguleika á að fara fyrr út á vinnumarkaðinn og jafnvel starfa sem sjálfstæður atvinnurekandi. 

650 sækja um verknám

Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins kemur fram að samkvæmt tölum frá Menntamálstofnun höfðu rúmlega 3.800 nemendur skilað inn sínum umsóknum um miðja síðustu viku. Vísbendingar séu um að fjölgun sé í umsóknum um verknám en af fyrstu tölum megi sjá að 17% þeirra sem sóttu um skólavist fyrir haustið hafa valið sér verknámsbrautir sem sitt fyrsta val. Í fyrra innrituðust 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir. Mest virðist aðsóknin vera í rafiðngreinar en einnig í málm- og byggingagreinar. 

Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að þetta séu ánægjulegar fréttir. 
„Við höfum beitt okkur fyrir því að styrkja iðn-, verk- og starfsnám og kynna betur þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast á framhaldsskólastiginu. Þetta eru ekki endanlegar tölur en þær gefa okkur jákvæðar vísbendingar um að við séum á réttri leið.“
 
Í fyrra innrituðust 65% nemenda á bóknámsbrautir, 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir, 5% nemenda á listnámsbrautir, og 18% á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut sem einkum eru ætlaðar þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði fyrir aðrar námsbrautir. 



Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.