Fréttasafn



3. nóv. 2021 Almennar fréttir

Undir nýrri ríkisstjórn komið hvort erlend fjárfesting aukist

„Það er undir nýrri ríkisstjórn komið að skapa hagfelld skilyrði fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Markaðnum í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um hvort bein erlend fjárfesting muni aukast á komandi misserum.  „Það er engum blöðum um það að fletta að tækifærin eru til staðar en það þarf að sækja þau,“ segir Sigurður og bætir við að það muni ekki gerast nema stjórnvöld séu virkir þátttakendur í því.

Fjárfestar leita þangað sem tækifærin eru

Sigurður segir í fréttinni að fjárfestar leiti þangað sem tækifæri eru til staðar og ekki óþarflega mikið flækjustig. „Við höfum til að mynda séð stórfyrirtæki eins og Google og Microsoft fjárfesta í uppbyggingu í Svíþjóð og Danmörku fyrir mjög stórar fjárhæðir sem styrkir upplýsingatækniiðnaðinn í þeim löndum. Við myndum vilja sjá að ný ríkisstjórn setji þessi mál á oddinn því þetta myndi leiða til enn meiri fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu, vexti og verðmætasköpun.“

Þarf skýr skilaboð frá stjórnvöldum

Þá segir Sigurður að mörg ríki vilji laða til sín fjárfestingu. „En það er þannig að fjárfestar leita fyrst þangað sem þeir eru velkomnir. Þess vegna skiptir máli að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um að svona uppbygging sé velkomin hér á landi.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 3. nóvember 2021.

Frettabladid-03-11-2021