Undirrita samkomulag um nýjan tækniskóla í Hafnarfirði
Áformað er að nýr tækniskóli rísi við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn undirrituðu skuldbindandi samkomulag þess efnis í dag. Næstu skref eru undirbúningur hönnunar og framkvæmdar með áætluð verklok haustið 2029.
Á vef Stjórnarráðsins segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra: „Þessi undirskrift hér í dag er risavaxið skref í eflingu verk- og starfsnáms, núna er loksins hægt að koma framkvæmdum af stað. Þetta hefur verið forgangsmál mitt sem menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og er mikið gleðiefni að sjá enn einn áfangann á þeirri vegferð verða að veruleika. Eftirspurnin er til staðar, bæði meðal nemenda og atvinnulífsins og því ánægjulegt að við stígum þetta mikilvæga skref nú saman til að mæta þessari þörf.“
Einnig segir Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans: „Nú byggjum við af stórhug til framtíðar og það er löngu tímabært að sameina starfsemina á einum stað. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og við erum afar þakklát stjórnvöldum og Hafnarfjarðarbæ fyrir þann stuðning og traust sem þau sýna skólanum með aðkomu sinni að þessu stóra verkefni. Ábyrgð skólans er mikil og við höfum undirbúið verkefnið af kostgæfni og erum sannfærð um að nýbygging skólans og hugmyndafræðin að baki grunnhönnun hennar muni stórefla iðn-, starfs- og tækninám í landinu.“
Undirritunin fór fram á Norðurbakkanum í Hafnarfirði með Flensborgarhöfn í baksýn. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.