Ungir frumkvöðlar kynna nýsköpun á vörumessu
Vörumessa Ungra frumkvöðla fór fram í Smáralind dagana 4. og 5. apríl. Þar kynntu 142 nemendafyrirtæki afrakstur 16 vikna nýsköpunarhraðals sem fór fram í framhaldsskólum víðs vegar um landið. Verkefnið sem ber heitið Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla er á vegum JA Iceland og er kennt í 18 framhaldsskólum. Nemendur læra að stofna og reka eigin fyrirtæki, afla hlutafjár og koma vöru eða þjónustu á markað. Verkefnið byggir á verklegri nálgun og er stutt af reyndum mentorum úr atvinnulífinu.
Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, hafði umsjón með dómarastörfum í tengslum við keppnishlutann á vörumessunni. Dómnefnd mat framlag þátttakenda út frá viðskiptahugmynd, útfærslu, kynningu á sýningarbás, myndbandi og lokaskýrslu. Sigurliðið er útnefnt Fyrirtæki ársins 2025 og fær tækifæri til að taka þátt í Evrópukeppni JA – GEN_E sem haldin verður í Aþenu í júlí.
Á myndinni eru frumkvöðlarnir sem fengu viðurkenningu fyrir besta básinn og öflugustu sölumennskuna ásamt menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra Loga Einarssyni. Nemendurnir eru úr Menntaskólanum við Sund. Urri leikfang hlaut viðurkenningu fyrir öflugust sölumennskuna og Marin hárolía fyrir flottasta básinn.