Fréttasafn



18. apr. 2018 Almennar fréttir

Uppbygging á Bakka er sóknarfæri allra Norðlendinga

Það voru líflegar umræður sem sköpuðust á fundi Samtaka iðnaðarins sem haldin var í tengslum við Dag byggingariðnaðarins á Norðurlandi um síðustu helgi. Fundurinn sem bar yfirskriftina Norðurland í brennidepli fór fram í Hofi á Akureyri. 

Í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, kom meðal annars fram að bæði Verkmenntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki hafi sýnt mikinn metnað við að sinna iðnmenntun og væri kennsla í þessum skólum sem og aðstaðan öll til mikillar fyrirmyndar. Fyrirtækin á svæðinu hafi sýnt mikla framsýni með því að styðja umtalsvert við skólana með stuðningi í formi tækja og tóla sem nýtast við kennsluna. Hún kom inn á mikilvægi þess að skapa tækifæri fyrir ungt fólk að sækja sér menntun í sinni heimabyggð því það væri ávallt sú hætta fyrir hendi að unga fólkið sem neyðist til að fara suður til að mennta sig skili sér ekki aftur til baka í heimabyggð. 

Mikil iðnaðarhefð við Eyjafjörð

Guðrún talaði einnig um mikla iðnaðarhefð við Eyjafjörð sem væri inngróinn í norðlenskt atvinnulíf. Hún sagði Eyjafjarðarsvæðið vera eina af matarkistum Íslands og þar væri mikil hefð fyrir vinnslu á kjöti, það væri því bagalegt að kennsla í kjötiðn hafi lagst af fyrir norðan og að nemendur þurfa nú að sækja sér þá menntun suður.

Þá sagði hún að uppbygging stóriðju við Bakka muni hleypa miklu lífi í allt atvinnulíf í fjórðungnum og það  þyrfti ekki að horfa lengra en til Reyðarfjarðar til að sjá hvaða áhif slík uppbygging getur haft. Þar hafi skapast um þrjú störf fyrir hvert eitt starf í álverinu. Hún sagði frá áhyggjum sínum sem hún lýsti á sambærilegum fundi fyrir tveimur árum þar sem henni þóttu sveitarfélögin ekki vera að undirbúa sig nægjanlega vel með tilliti til íbúafjölgunar og hversu lítið væri áformað að byggja. Henni virtist það vera að koma á daginn að skortur á húsnæði muni verða hamlandi vexti á svæðinu. Guðrún sagði það vera óhjákvæmilegt að því fylgi einhverjir vaxtarverkir þegar svo stór vinnustaður kemur inn á eitt atvinnusvæði en því fylgi einnig miklar framfarir og taldi hún að uppbyggingin á Bakka væri sóknarfæri allra Norðlendinga.

Á Facebook SI er fleiri myndir frá Degi byggingariðnaðarins á Norðurlandi.

TOTI1553

TOTI1555

TOTI1698