Fréttasafn16. feb. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Upplýsingaóreiða breytir ekki stóru myndinni fyrir íbúðaþörf

„Við höfum lengi óskað eftir því að fá aðgengi að betri gögnum um húsnæðismarkaðinn og því er þetta endurmat jákvætt enda hefur ríkt upplýsingaóreiða um mannfjöldaþróun hér á landi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um endurmat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á uppsafnaðri íbúðaþörf. „Þetta endurmat hefur þó ekki áhrif á þá staðreynd að það er og verður eftir sem áður skortur á íbúðum sem mun magnast vegna samdráttar í nýframkvæmdum. Hækkun byggingarkostnaðar dregur úr framboði og veldur þannig hækkun nafnverðs.“

Í fréttinni segir að eins og Morgunblaðið hafi  fjallað um hafi fjármálaráðuneytið gefið út að íbúafjöldinn hafi verið ofmetinn um 14 þúsund manns. Samkvæmt því búi 386 þúsund manns á Íslandi en ekki tæplega 400 þúsund. 

Þegar blaðamaður spyr hvort fjölmiðlar hafi dregið upp ýkta mynd í umfjöllun af íbúðaskorti á Íslandi síðustu ár svarar Sigurður: „Nei, ég tel svo ekki vera. Við höfum meira horft fram á veg, hver spáð fólksfjölgun er í framtíð og hvað það muni kalla á margar íbúðir. Mér sýnist í fljótu bragði að þessi endurskoðun breyti ekki stóru myndinni hvað það varðar. Það komu tæplega 3.100 nýjar íbúðir á markaðinn í fyrra og það er enn undirliggjandi þörf á markaði. Samtímis erum við að horfa fram á samdrátt í framkvæmdum og sérstaklega á fyrstu byggingarstigum. Við sjáum skýr merki um það t.d. í talningu HMS á íbúðum í byggingu. Við gerðum nýverið könnun meðal verktaka þar sem við báðum þá að bera saman fjölda íbúða sem þeir hefðu hafið byggingu á síðustu 12 mánuði og fjölda íbúða sem þeir ætluðu að byrja að byggja á næstu 12 mánuðum. Það reyndist vera mikill samdráttur eða 30% sem bætist þá við 65-75% samdrátt frá árinu áður á þennan sama mælikvarða.“

Morgunblaðið, 16. febrúar 2024.

Morgunbladid-16-02-2024