Fréttasafn24. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Upprunaábyrgðir - svör Samtaka iðnaðarins

Forstjóri Landsvirkjunar beinir spjótum sínum að Samtökum iðnaðarins í grein sinni í Morgunblaðinu 22. febrúar þar sem hann fjallar um málflutning Samtaka iðnaðarins um sölu á upprunaábyrgðum úr landi og raunar fleiri mál sem tengjast raforkuverði. Samtök iðnaðarins (SI) vilja í tengslum við þetta koma eftirfarandi á framfæri. Afstaða SI til þessara mála hefur verið skýr um árabil eins og fram kemur hér fyrir neðan og lýtur að heildarhagsmunum enda eru það skýrir hagsmunir allra félagsmanna Samtaka iðnaðarins að samkeppnisforskot Íslands sem land endurnýjanlegrar orku sé tryggt en ekki selt úr landi. Samtök iðnaðarins taka undir sjónarmið iðnaðarráðherra 2016 um að brýnt sé að staðinn sé vörður um þá ímynd og staðreynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka. Ummælin komu í kjölfar skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið um upprunaábyrgðir raforku en þar kom m.a. fram að ef markmið stjórnvalda væri að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka, þá virðist sala orkufyrirtækja áupprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði. Lausnin felst í því að hætta sölu upprunaábyrgða úr landi. Þannig er ímynd Íslands ekki teflt í tvísýnu.

Afstaða SI varðandi upprunaábyrgðir legið fyrir í mörg ár

Af hverju að selja græna ímynd frá okkur fyrir brotabrot af árlegum hagnaði orkufyrirtækja?

  • Rit um raforkumarkaðinn og áherslur SI þar að lútandi kom út 16. október 2019. Skýrslan endurspeglar raforkustefnu SI auk þess að skýra út uppbyggingu raforkumarkaðarins á Íslandi. Í ritinu var einnig stuttlega fjallað um upprunaábyrgðir en þar kom m.a. fram:

Þar sem nýting endurnýjanlegra orkugjafa, og uppbygging virkjunarkosta á því sviði, er dýrari erlendis en nýting á jarðefnaeldsneyti þá hefur með þessu fyrirkomulagi verið vikið frá ströngum skilyrðum um ríkisstyrki og notendur hvattir til að styrkja fyrirtæki í þessum umbreytingum og nýframkvæmdum í orkuvinnslu. Þá er um að ræða átak ríkja í Evrópu til að stuðla að því að þau nái þeim markmiðum sem þar hafa verið sett í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Aðstæður eru með öðrum hætti hér í landi endurnýjanlegra orkugjafa enda hafa orkuskipti í raforkuframleiðslu og raunar húshitun fyrir löngu átt sér stað. Engu að síður hafa íslensk raforkufyrirtæki verið virk á þessum markaði. Slík sala upprunavottorða út fyrir landsteinana grefur undan ímynd Íslands sem lands endurnýjanlegrar orku.

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um upprunaábyrgðir og sölu þeirra þriðjudaginn 18. febrúar sl. Í kjölfar þáttarins var afstaða SI áréttuð í fjölmiðlum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur nú brugðist við og spyr SI fimm spurninga í grein sinni auk þess að tengja málflutning samtakanna við þá stöðu sem uppi er í Straumsvík. Rétt er að árétta það að afstaða SI til þessara mála hefur verið skýr lengi sbr. ofangreint og hefur ekki með núverandi stöðu ÍSAL að gera. Misskilnings gætir í grein forstjóra Landsvirkjunar en svör við þeim spurningum sem hann setur fram eru hér fyrir neðan.

Á vef Orkustofnunar er að finna upplýsingar um uppruna raforku á Íslandi árin 2011-2018. Eins og myndin sýnir þá er einungis lítið brot orkunnar endurnýjanlegt samkvæmt þessu eða 11% árið 2018.

Uppruni-raforku-a-islandi

Spurning 1: Vísað er til fullyrðingar á vefsíðu SI þess efnis að íslensk orkufyrirtæki selji upprunavottorð til kolaorkuvera í Evrópu. Spurt er hvort SI geti bent á dæmi um slíkt.

Svar. SI hafa ekki haldið þessu fram en þarna eru SI eignuð ummæli annarra í frétt Stöðvar 2 miðvikudaginn 19. febrúar sl. Afleiðing þess að innlend orkufyrirtæki selji upprunaábyrgðir úr landi hefur þau áhrif á orkubókhald Íslands að 55% orkunnar hér á landi eru sögð koma til vegna jarðefnaeldsneytis og 34% frá kjarnorku samkvæmt upplýsingum á vef Orkustofnunar.

Spurning 2: Geta Samtök iðnaðarins bent á skaða sem orðið hefur á ímynd Íslands?

Svar. Vísað er til fréttar á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, frá 18. október 2016, í tilefni af skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið um upprunaábyrgðir á raforku. Í umræddri frétt segir m.a. að ef markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka, þá virðist sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði. Þá er í sömu frétt eftirfarandi haft eftir þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra:

Að mati iðnaðar- og viðskiptaráðherra er brýnt að staðinn sé vörður um þá ímynd og staðreynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orka. Til að ná framangreindum markmiðum, um ímynd Íslands í orkumálum, liggur því beinast við að beina ábyrgðinni að þeim orkufyrirtækjum sem selja upprunaábyrgðir úr landi og fá þau í lið með þeirri stefnu stjórnvalda að tryggja ímynd Íslands um hreina orkuframleiðslu. Í því skyni er mikilvægt að í eigendastefnu þeirra orkufyrirtækja sem eru í eigu hins opinbera verði lögð áhersla á mikilvægi þess að standa vörð um þá ímynd að á Íslandi sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg orku, og það sé hluti af markaðssetningu Íslands og íslenskra fyrirtækja, sem og almennri orkustefnu.

Nýting umhverfisvænnar orku skapar Íslandi afgerandi sérstöðu meðal þjóða heims. Sem lítið hagkerfi á Ísland einnig allt undir í utanríkisviðskiptum. Ísland er eitt örfárra landa í heiminum sem getur markaðssett sig sem land hreinnar, endurnýjanlegrar orku. Sala upprunaábyrgða raforku úr landi breytir þessari sérstöðu. Þetta hefur það í för með sér að með sölu ábyrgðanna úr landi breytist uppgefin orkusamsetning í opinberum tölum hér á landi og samkvæmt þeim upplýsingum mætti ætla að á Íslandi væri uppruni raforku 55% jarðefnaeldsneyti, 34% kjarnorka og einungis 11% endurnýjanleg orka. Þetta getur valdið ruglingi í upplýsingagjöf og skilaboðum út á markaði. Þetta teflir í tvísýnu ímynd Íslands sem land hreinnar orku. Sterk og jákvæð ímynd gagnast útflutningsfyrirtækjum í markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu.

Spurning 3: Bent er á að í umræðu um upprunaábyrgðir hafi Samtök iðnaðarins spurt „hver vill ekki selja fisk frá kolefnishlutlausu landi?“ og séu þar með að blanda saman kolefnishlutleysi og viðskiptum með upprunaábyrgðir. Spurt er hvernig þetta sé útskýrt.

Svar. Þó þetta sé tvennt ólíkt þá snýr hvorutveggja að ímynd Íslands. Þar að auki eru loftslagsmál og orkumál samofin í regluverki ESB. Það er vegna þess að við raforkuframleiðslu fara gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Undantekningin þar eru endurnýjanlegir orkugjafar og þess vegna nýtur Ísland mikillar sérstöðu í alþjóðlegu samhengi þar sem raforka hér á landi er framleidd með vatnsafli og jarðvarma sem eru endurnýjanlegir orkugjafar. Með sölu upprunaábyrgða úr landi er grafið undan þessari sérstöðu. Það er því rangt að SI hafi blandað saman losunarheimildum og upprunaábyrgðum.

„Ef markmið stjórnvalda er að tryggja ímynd Íslands og að framsetning á raforkusölu á Íslandi sé með þeim hætti að hér sé eingöngu framleidd og seld endurnýjanleg raforka, þá virðist sala orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum úr landi ekki samræmast því markmiði.“ segir í frétt á vef stjórnarráðsins eins og áður var vikið að. Undir þetta taka SI.

Forsætisráðherra spurði „hver vill ekki selja fisk frá kolefnishlutlausu landi?“ á Viðskiptaþingi 2018. Þeirri spurningu var varpað fram til þess að benda á að sterk, jákvæð ímynd Íslands í loftslagsmálum getur sannarlega aukið spurn eftir því sem íslenskt er. Það getur laðað fleiri ferðamenn til landsins, aukið útflutningsvirði sjávarafla og almennt aukið virði þeirrar framleiðslu sem hér á sér stað. Ef bætt ímynd Íslands myndi skila sér í auknum útflutningsverðmætum þá væru það mun meiri hagsmunir heldur en söluandvirði upprunaábyrgða. Um leið og upprunaábyrgðir eru seldar úr landi þannig að uppruni orkunnar er ekki lengur endurnýjanlegur þá er þessari ímynd teflt í tvísýnu.

Spurning 4: Telja SI að alþjóðleg stórfyrirtæki eigi að borga það sama fyrir græna þátt raforkunnar á Íslandi og þau greiða í öðrum löndum?

Svar. Sam­tök iðn­að­ar­ins hafa ítrekað bent á að orku­verð til orku­sæk­ins iðn­aðar á Íslandi þurfi að vera sam­keppn­is­hæft enda mik­il­vægt að standa vörð um sam­keppn­is­hæfni ­iðn­aðar á Íslandi. Sam­tökin benda á að líta þurfi til virð­is­keðj­unnar í heild sinni og að auk­inn sveigj­an­leika þurfi á raf­orku­mark­aði enda getur slíkur sveigj­an­leiki aukið sam­keppn­is­hæfni Íslands á þessu sviði. Verð raf­orkunnar eitt og sér er því ekki það eina sem líta þarf til.

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar nefndi það nýlega að raforkumarkaður á Íslandi væri vanþroskaður. Undir það taka SI og hafa bent á leiðir til að þroska markaðinn og um leið að auka samkeppnishæfni Íslands. Þar liggja meðal annars sameiginlegir hagsmunir orkufyrirtækja og iðnfyrirtækja.

Þá má benda á að orkuverð hefur lækkað erlendis á undanförnum árum, meðal annars vegna þess að endurnýjanleg orka hefur lækkað í verði. Á sama tíma hefur raforkuverð á Íslandi hækkað. Þar með hefur samkeppnisstaðan hlutfallslega versnað.

Spurning 5: Er það með samþykki meirihluta félagsmanna að samtökin beiti sér fyrir því að íslenska þjóðin gefi nokkrum alþjóðlegum stóriðjufyrirtækjum 20-30 milljarða á næstu 10 árum?

Svar. Samtök iðnaðarins skipta sér ekki af orkuverði á Ísland. Stefna SI í raforkumálum litast ekki af hagsmunum fárra alþjóðlegra stórfyrirtækja umfram hagsmuni annarra féalgsmanna. Þvert á móti hafa sam­tökin talað fyrir mik­il­vægi þess að virð­is­keðjan á íslenskum orku­mark­aði sé arð­bær fyrir alla sem á þeim mark­aði eru. Í raf­orku­stefnu sam­tak­anna, sem sam­þykkt var árið 2016 af stjórn SI þar sem saman koma full­trúar ólíkra greina iðn­að­ar, er meg­in­stefið að raf­orka fram­leidd á Íslandi sé nýtt til verð­mæta­sköp­unar inn­an­lands því öfl­ugur iðn­aður skapar verðmæti og er und­ir­staða búsetu og vel­ferð­ar. Horft er til sam­eig­in­legra hags­muna íslensks iðn­aðar og ekki gerður grein­ar­munur á bygg­ing­ar­iðn­aði, fram­leiðslu­iðn­aði eða hug­verka­iðn­aði. Sam­keppn­is­hæft orku­verð gagnast öllum sem eru í rekstri, allt frá bak­ar­anum til stór­iðj­unn­ar. Þá eru það skýrir hagsmunir allra félagsmanna Samtaka iðnaðarins að samkeppnisforskot Íslands sem land endurnýjanlegrar orku sé tryggt.