Fréttasafn19. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Upprunaábyrgðir til umfjöllunar í Kveik á RÚV

Upprunaábyrgðir voru til umfjöllunar í þættinum Kveik sem sýndur var á RÚV í gær. Meðal viðmælenda í þættinum voru Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, og Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. Í þættinum kemur fram að íslensk orkufyrirtæki hafi selt vottanir fyrir hreinni orku úr landi á sama tíma og ímynd hreinnar íslenskrar orku er notuð í kynningarstarfi.  

Gefur villandi mynd og skaðar ímynd okkar

Sigríður segir í þættinum að þetta sé í rauninni bara rétt markaðssetning. „Þetta er markaðssetning í samræmi við raunveruleikann.“ Þegar þáttastjórnandinn nefnir að þetta sé ekki í samræmi við það sem standi á rafmagnsreikningnum segir hún: „Það er rétt, og það er akkúrat vandinn í stöðunni. Þess vegna gefur þetta villandi mynd og skaðar okkar ímynd.“

Þá segir Sigríður að með því að hætta að gefa út og selja þessar ábyrgðir út fyrir landsteinana þá getum við snúið þessari stöðu við okkur í hag. „Það á ekki að vera neinn vafi á því hvernig við getum markaðssett okkar vöru og þjónustu og þetta á við um öll fyrirtæki sem eru í útflutningi. Og jafnvel snýr líka að því að laða erlenda fjárfestingu til landsins.“

Ef trúum á kerfi upprunaábyrgða er ekkert samkeppnisforskot að vera á Íslandi

Pétur segir að þetta sé áhyggjuefni þar sem við séum í landi endurnýjanlegrar orku.„Spurningin er þá bara hvort að þetta sé villandi framsetning. Bara spurningin í sjálfu sér finnst mér áhyggjuefni.“ Hann segir þetta vera valkvætt kerfi þannig að álfyrirtækin verði auðvitað að meta hvort þau stígi inn í það. „Og það fylgir því kostnaðarauki á vöruna.“ Pétur bendir á að verð á áli ráðist á heimsmarkaði og álver séu viðkvæm fyrir öllum viðbótarkostnaði. „Það að ál sé framleitt með endurnýjanlegri orku, það út af fyrir sig hefur ekki skilað hærra verði að mér vitandi.“

Hann segir að í landi endurnýjanlegrar orku þurfum við þá allt í einu að kaupa réttinn til þess að segja að við séum með endurnýjanlega orku. „Það er óheppilegt og ég held að það sé líka óheppilegt að kerfið sé sett upp þannig að það séu bara nokkur fyrirtæki sem að fá ekki upprunaábyrgðunum útdeilt með raforkunni.“ Þá segir Pétur að ef við trúum einungis á kerfi upprunaábyrgða þá sé ekkert samkeppnisforskot að vera á Íslandi. „Þá höfum við bara ekkert umfram fyrirtæki á meginlandi Evrópu sem er statt við hliðina á kjarnorkuveri.“

Á vef RÚV er hægt að horfa á þáttinn.

Kveikur2Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI.

Kveikur1Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.